Toymachine gefur breiðskífu formlega út
Hljómsveitin Toymachine sendir í dag formlega frá sér sína fyrstu breiðskífu. Platan, sem ber nafnið Royal Inbreed, kom reyndar út í desemberá síðasta ári en hefur aðeins verið fáanleg á vinyl þar til í dag, að því er segir í tilkynningu frá hljómsveitinni.
Toymachine var stofnuð á Akureyri árið 1996 af þeim Jens Ólafssyni söngvara, Baldvin Z trommara, Atla Hergeirssyni bassaleikara og Kristjáni Örnólfssyni gítarleikara. Undirbúningur fyrir þessa fyrstu plötu bandsins var í fullum gangi árið 2001 þegar upp úr sauð og meðlimir slökktu í framhaldinu á Toymachine, eins og það er orðað.
„Núna, 20 árum síðar hefur vélin verið ræst upp á nýtt og er loks komin út þessi langþráða plata sem geymir 10 lög úr smiðju bandsins en í nýjum upptökum. Platan var tekin upp í ágúst mánuði 2020 í Stúdíó Hljóðverk í Reykjavík þar sem Einar Vilberg ræður ríkjum, en Einar sá einmitt um upptökur og hljóðblöndun ásamt því að aðstoða bandið við útsetningar að hluta. Það er hljómsveitin sjálf sem sér um útgáfu plötunnar í samstarfi við Bandaríska fyrirtækið ONErpm sem sér m.a um markaðs og dreifingarmál,“ segir í tilkynningu.
Toymachine stefnir á útgáfutónleika síðar á árinu, eða þegar slíkir viðburðir verða leyfilegir á ný.
Nokkur myndbönd munu fylgja eftir útgáfunni í netheimum og mun það fyrsta líta dagsins ljós í dag á opinberri YouTube rás Toymachine.