Tónverk ársins samið sérstaklega fyrir SN

Konsert nr. 2 fyrir hljómsveit var kosið tónverk ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í vikunni. Verkið var samið af Snorra Sigfúsi Birgissyni fyrir Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á árunum 2020 – 2024. Verkið var frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í September 2024 undir stjórn Daníels Bjarnasonar, en tónskáldið var viðstaddur flutninginn.
Snorri sótti meðal annars innblástur í íslenska kvæðalist, þegar hann samdi verkið, en hann segir frá því að stemma sem Þorbjörn Kristinsson hafi kveðið við vísu eftir bróður sinn Hjörleif Kristinsson, sé dæmi um það. Þorbjörn var um árabil barnaskólakennari við Glerárskóla og eflaust einhverjir lesendur sem muna eftir honum en hann lést árið 2001. Vísan er svona:
Dags er glæta þrotin þá
þokan vætir kinnar.
‘Skjóna fætur skripla á
skuggum næturinnar.
Í fréttatilkynningu frá Menningarfélaginu segir að mikill heiður sé fyrir Sinfónínuhljómsveit Norðurlands, að verkið hafi verið samið fyrir hljómsveitina og frumflutt af henni í Hofi.
Snorri Sigfús með verðlaunin fyrir tónverk ársins. Mynd: aðsend