Tónlistarmiðstöð heldur fræðsluviðburð

Tónlistarmiðstöð er samráðsvettvangur hagsmunaaðila tónlistar á Íslandi. Hlutverk hennar er m.a. að sinna fræðslu og styðja við bakið á íslensku tónlistarfólki. Auk þess er hlutverk hennar að kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Einnig sér Tónlistarmiðstöð um rekstur og starfsemi Tónlistarsjóðs, en umsóknarfrestur styrkja rennur út 15. apríl.
Í samstarfi við SSNE, verður fræðsluerindi frá Tónlistarmiðstöð á dagskrá á Akureyri þann 13. mars næstkomandi. Viðburðurinn verður haldinn í húsakynnum Tónlistarskólans á Akureyri í Hofi, en hann er öllum opinn, kostar ekkert en það þarf að skrá sig. Í frétt um viðburðinn á heimasíðu Tónlistarmiðstöðvar segir að öll sem koma að tónlist séu hvött til þess að fjölmenna og fræðast um hlutverk miðstöðvarinnar og hvaða aðstoð hún getur veitt. Kaffi og með því verður í boði.
Um Tónlistarmiðstöð
Úr fréttatilkynningu frá stofnun miðstöðvarinnar
Þann 15. ágúst 2023 var Tónlistarmiðstöð stofnuð með það að markmiði að efla íslenska tónlist bæði hér heima og erlendis með markvissri uppbyggingu á listgreininni. Inn í Tónlistarmiðstöð runnu tveir forverar hennar, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) og Tónverkamiðstöð, sem voru lagðar niður. Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er tónlist á Íslandi búið varanlegt heimili þar sem hægt verður að leita á einn og sama staðinn eftir fræðslu, stuðningi og upplýsingum.