Þúsundir titla í boði á markaði bókaútgefenda
Félag íslenskra bókaútgefenda opnaði í dag árlegan bókamarkað sinn hér norðan heiða. Hann er nú til húsa nokkrum metrum norðan bæjarmarka Akureyrar, þar sem Húsasmiðjan var lengi með verslun sína á Lónsbakka.
Kristján Karl Kristjánsson hefur séð um bókamarkaðinn allar götur síðan 2006 og sett hann upp árlega á Akureyri nema hvað ekkert varð af honum 2020 vegna heimsfaraldursins.
„Við byrjuðum með 1.500 titla árið 2006 en nú eru þeir um 5.000, auk þess sem um 2.000 titlar eiga eftir að bætast við, úr bókasafni sem ég var beðinn um að selja og á von á,“ sagði Kristján Karl við Akureyri.net í dag.
Margra grasa kennir á markaðnum að vanda; barna- og unglingabækur eru þar í röðum, einnig íslensk skáldverk og þýdd, bæði innbundnar bækur og kiljur, ævisögur, ljóðabækur, hannyrðabækur, alls kyns fræðibækur og þannig mætti áfram telja.
Opið er alla daga frá klukkan 10.00 til 18.00 þar til sunnudaginn 11. september.