Fara í efni
Menning

Þungar áhyggjur af Smámunasafninu

Stjórn Félags íslenskra safna og safnamanna (FÍSOS) hefur sent sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar erindi vegna málefna Smámunasafns Sverris Hermannssonar. Sveitarstjórn hefur ákveðið að selja Sólgarð, þar sem safnið hefur verið til húsa, og ekki er gert ráð fyrir rekstri safnsins á þessu ári í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Erindið í heild er svohljóðandi:

Stjórn FÍSOS, Félags íslenskra safna og safnmanna, lýsir þungum áhyggjum af stöðu mála hjá Smámunasafni Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit og því stefnuleysi sem virðist ríkja hjá sveitarstjórn varðandi safnið og framtíð þess. Húsnæði safnsins hefur verið auglýst til sölu og algjör óvissa ríkir um framtíð safnsins og þeirrar starfsemi sem þar hefur verið.

Um er að ræða safn sem er algjörlega einstakt í sinni röð og á sér ekki hliðstæðu hérlendis, en góða lýsingu á sérstöðu þess og samfélagslegu gildi er að finna á vefsíðu Eyjafjarðarsveitar, þar sem segir; „Smámunasafnið eins og það hefur verið nefnt hefur þá sérstöðu að vera ekki safn einhverra ákveðinna hluta heldur allra mögulegra hluta. Hversdagslegir hlutir eru þar mitt á meðal afar óhefðbundinna hluta. Því hefur safnið stórkostlegt menningarlegt gildi fyrir okkur og komandi kynslóðir.“

Eyjafjarðarsveit fékk safnið að gjöf frá Sverri og er mikilvægt að sveitarstjórnendur átti sig á ábyrgðinni sem felst í móttöku slíkrar gjafar. Í þriðju grein siðareglna Alþjóðaráðs safna, ICOM, segir; „Söfn bera sérstakar skyldur gagnvart öllum til að varðveita, tryggja aðgang að og túlka þau frumgögn og -heimildir sem safnað hefur verið og geymd eru í safneign þeirra.“ Fram til þessa hefur gjöfinni verið sýndur mikill sómi; safnið verið aðgengilegt gestum, sýningin sett upp á faglegan og vandaðan hátt og faglegu starfi við skráningu safnkosts sinnt af kostgæfni, en með ákvörðun sveitarstjórnar um sölu á Sólgarði og orðum sveitarstjóra að möguleiki sé á að kaupandi taki yfir safneignina og sýninguna er stöðu safnsins stefnt í mikla tvísýnu og sýnt að skilningi á verðmæti safneignarinnar og skyldum sveitarstjórnar gagnvart safninu er ábótavant.

Stjórn FÍSOS hvetur sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar til að endurskoða ákvörðun sína og horfa frekar til þess að efla og styrkja starfsemina samfélaginu til heilla.

  • Stjórn FÍSOS kallar jafnframt eftir svörum frá sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar við eftirfarandi spurningum:
  • Hver er stefna sveitarstjórnar varðandi framtíð safnsins?
  • Hvað hyggst sveitarstjórn gera við safnkost og sýningu safnsins ef húsnæði safnsins verður selt?
  • Hefur sveitarstjórn hug á að selja sjálfa safneignina? Sbr. orð sveitarstjóra í viðtali við Akureyri.net þann 19. mars 2022: „Og ef einhver hefur áhuga á að vera með einhvern rekstur þá er það mögulegt. Ef sá aðili hefði áhuga á að vera með menningartengdan rekstur gæti Smámunasafnið verið áfram í Sólgarði.“ 

Virðingarfyllst – og með von um skjót og skýr svör,

Stjórn FÍSOS, Félags íslenskra safna og safnmanna

Anita Elefsen, formaður, Síldarminjasafn Íslands

Elsa Guðný Björgvinsdóttir, varaformaður, Minjasafn Austurlands

Jón Allansson, gjaldkeri, Byggðasafnið á Görðum

Ingibjörg Áskelsdóttir, ritari, Borgarsögusafn Reykjavíkur

Þóra Sigurbjörnsdóttir, meðstjórnandi, Hönnunarsafn Íslands

Sigríður Þorgeirsdóttir, varamaður, Þjóðminjasafn Íslands

Hjörtur Þorbjörnsson, varamaður, Grasagarður Reykjavíkur