Þrjátíu milljóna óður til skapandi gleði
Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra menningar og viðskipta, og Eva Hrund Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, undirrituðu í gær samning um viðbótarframlag úr ríkissjóði upp á 10 milljónir króna á ári í þrjú ár til Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, sérstaklega ætlað vegna verkefna SinfoniaNord, sem er í hnotskurn kvikmyndatónlistarverkefni hljómsveitarinnar. Segja má að um eins konar afmælisgjöf sé að ræða því undirritunin fór fram skömmu áður en afmælistónleikarnir SN30 hófust í Hofi.
Fyrir undirskriftina ræddi Lilja um það sem býr að baki því metnaðarfulla starfi sem einkennir hljómsveitina. „Þá verða til hreinir töfrar þannig að ég er ótrúlega þakklát fyrir að fá að taka þátt í þessu með ykkur og óska ykkur alls hins besta,“ sagði Lilja áður en samningurinn var undirritaður.
Stuðningur við skapandi Ísland
Strax að lokinni undirskrift var Lilja á leið á svið til að flytja ávarp í aðdraganda 30 ára afmælistónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands þar sem Óðurinn til gleðinnar, 9. sinfónía Beethovens, var á dagskrá. Lilja gaf sér þó tíma í stutt spjall við Akureyri.net.
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kór Akureyrarkirkju, Mótettukórinn og stjórnandinn, Bjarni Frímann Bjarnason, á sviðinu í Hofi í gær. Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson
„Í mínum augum er þetta þannig að við erum að styðja við hugtakið Skapandi Ísland, að allt Ísland sé skapandi. Liður í því er tónlistarstefna sem var samþykkt af Alþingi Íslendinga, aðgerðir til að hlúa að tónlist fyrir skapandi Ísland,“ segir Lilja.
Hún bendir á metnaðarfullt starf hljómsveitarinnar, útflutning á hugviti og tengingar erlendis. Allt þetta skipti máli fyrir tónlistarlífið á Akureyri og hér í kring. „Vegna þess að þetta fer allt saman, það er að vera með mjög öfluga sinfóníuhljómsveit sem byggir á mjög öflugu tónlistanámi hér og margföldunaráhrif bara af því sem við erum að skrifa hér undir eru gríðarleg vegna þess að það sem hefur tekist að gera hér er að framleiða gæðatónlist til útflutnings og það styð ég.“
Af hverju ekki Akureyri?
Atli Örvarsson, tónskáld og annar upphafsmanna SinfoniaNord, hefur margoft þurft að svara þeirri spurningu í viðtölum af hverju hann vinni að upptökum á kvikmyndatónlist á Akureyri. „Hann vildi búa nálægt mömmu sinni,“ skaut einn viðstaddra inn í þegar þessi spurning kom upp.
„Mögulega var það að hluta til út af búsetu,“ segir Atli. „Þegar ég flutti til Akureyrar fyrir átta árum var Þorvaldur Bjarni nýfluttur hingað líka og hafði tekið við hljómsveitinni. Við höfðum stórar hugmyndir um hvað væri hægt að gera. Við sáum strax að hér er frábær hljómsveit, frábært hús með frábærum hljómburði og kannski er það frekar, af hverju ekki Akureyri, frekar en í hina áttina. Við fórum að prófa okkur áfram.” Fyrsta verkefnið var árið 2015, tónlist við kvikmynd sem Sony framleiddi.
„Ég held að það styðji við það sem Lilja segir, það var engin tregða gagnvart því. Já, já, farðu til Akureyrar, farðu til Íslands að taka upp tónlist. Af því að ég veit að íslensk tónlist er komin með þann stimpil á alþjóða mælikvarða að fólk treystir okkur. Þar af leiðandi hefur þetta gengið upp. Við skilum góðu starfi og útkoman er góð, en þegar allt kemur til alls er það röð atburða sem veldur því að við erum að gera þetta hér.”
Leiðir tveggja gamalla vina, Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar og Atla Örvarssonar, lágu saman í Hofi 2014 og til varð verkefnið SinfoniaNord. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Saga SinfoniaNord nær aftur til 2014 þegar tveir gamlir vinir Atli og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, tóku saman höndum og komu verkefninu á fót. Markmiðið var að sameina þekkinguna, hæfileikana, tengslanetið og þá stórkostlegu aðstöðu sem aðstaðan í Hofi er. Starfsemin gengur út á að bjóða upp á upptökur sinfóníuhljómsveitar á kvikmynda-, leikja- og sjónvarpstónlist. Það er nefnilega eins og Hof hafi sérstaklega verið hannað fyrir þannig verkefni, eins og Þorvaldur Bjarni komst að orði við blaðamann fyrir undirskriftina. Hljómburðurinn og öll aðstaða og aðgengi eru hreinlega eins og sniðin fyrir slík verkefni.
Mikilvægt framlag í alþjóðlegri samkeppni
„Við erum í alþjóðlegri samkeppni. Það er verið að taka upp sinfóníska tónlist út um allan heim. Þetta hjálpar okkur til að staðsetja hljómsveitina í því að við verðum samkeppnishæfari. Auðvitað er gríðarlega mikilvægt að finna þennan stuðning frá ríkinu og frá Lilju sérstaklega. Það er trúað á okkur. Í stærra samhengi væri ekki til sinfóníuhljómsveit á Akureyri ef það væri ekki góður tónlistarskóli á Akureyri og trúlega væri ekki svona góður tónlistarskóli á Akureyri ef hann hefði ekki verið studdur af ríki og bæ. Þannig að forréttindin eru auðvitað að búa og starfa í landi sem er stutt við listir og það er forsendan fyrir öllu sem við erum að gera,” segir Atli.
Frá undirskrift samningsins. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri MAK, Eva Hrund Einarsdóttir, framkvæmdastjóri MAK, Lilja Alfreðsdóttir, ráherra menningar og viðskipta, og Atli Örvarsson tónskáld. Ljósmynd: Unnur Anna Árnadóttir.
Breiddin er ekki tilviljun
Lilja grípur boltann á lofti og ræðir forréttindahliðina á tónlistarnáminu í því samhengi að hún og Atli hafa bæði búið í Bandaríkjunum.
„Það eru ákveðin forréttindi að fara í tónlistarnám frá blautu barnsbeini í Bandaríkjunum. Þú þarft að vera með ákveðin fjárráð. En hér erum við búin að taka þá ákvörðun að allir sem vilja og hafa hug á að fara í tónlistarnám geta gert það með einum eða öðrum hætti. Ég vil meina að það sé þessi breidd í íslenskri tónlist vegna þess að við erum með þessa breiðu nálgun á að allir þjóðfélagshópar geti tekið þátt í tónlist og geti farið í tónlistarnám. Þess vegna held ég að þessi aukakraftur eða þessi taktur sem við erum með hér, það er meiri breidd í honum, meðal annars af því hvernig við nálgumst tónlistina.“
Blaðamaður stenst ekki mátið að nefna samlíkingu við íþróttirnar enda var Lilja um nokkurra ára skeið ráðherra íþróttamála. Mögulega mætti líkja því að styrkja Sinfóníuhljómsveit Norðurlands við það að styrkja meistaraflokkinn til að yngri iðkendur eigi sér fyrirmyndir og sjái framtíð í því að halda áfram í tónlistinni.
„Það er til orðatiltæki sem heitir stjörnurnar vísa veginn. Þetta er partur af því, allt þetta þarf, alveg eins og þú ert að tala um með íþróttirnar, það þarf að vera með öflugan meistaraflokk karla og kvenna til þess að 8. flokkur og 7. flokkur sé hress og kátur, þetta er nákvæmlega þannig.“