Þrjátíu ár í dag frá fyrstu tónleikum SN
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (SN) var stofnuð haustið 1993 og fyrstu tónleikar sveitarinnar voru fyrir nákvæmlega 30 árum – sunnudaginn 24. október – í Akureyrarkirkju.
Á efnisskrá fyrstu tónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands voru forleikur að Töfraflautunni eftir Wolfgang Amadeus Mozart, flautukonsert eftir sama höfund og loks Sinfónía nr. 1 eftir Ludwig van Beethoven.
38 hljóðfæraleikarar
Einleikari á flautu á fyrstu tónleikunum var Frakkinn Martial Nardau, sem búsettur hafði verið á Íslandi í áratug. Konsertmeistari var Szymon Kuran. Á þessum tónleikum var hljómsveitin skipuð 38 hljóðfæraleikurum; 34 af landsbyggðinni og fjórum af höfuðborgarsvæðinu. Stjórnandi á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands var Guðmundur Óli Gunnarsson, sem stjórnaði forvera Sinfóníuhljómsveitarinnar, Kammerhljómsveit Akureyrar, síðasta starfsár hennar. Guðmundur Óli var lengi aðalstjórnandi SN.
Beethoven aftur
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands fagnar 30 ára afmæli sínu með flutningi á 9. sinfóníu Beethovens, ásamt kór Akureyrarkirkju og Mótettukórnum, á tónleikum í Hofi á sunnudaginn kemur, 29. október, undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.
Þetta verður í fyrsta skipti, eftir því sem næst verður komist, sem kvæði Friedrichs Schillers (1759-1805) í lokaþætti sinfóníunnar, eini sungni hluti hennar, verður sungið á íslensku þegar 9. sinfónía Beethovens er flutt í heild. Einsöngvarar verða Herdís Anna Jónasdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Gunnar Björn Jónsson og Oddur Arnþór Jónsson, en ásamt þeim syngja kór Akureyrarkirkju og Mótettukórinn.
- Viðtal Akureyri.net við Bjarna Frimann Bjarnason: Óðurinn til gleðinnar í fyrsta skipti á íslensku
Umfjöllun Akureyrarblaðsins Dags eftir fyrstu tónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í október 1993.