Þorgerðartónleikar – Norðurorka styrkir

Árlegir Þorgerðartónleikar Tónlistarskólans á Akureyri verða í Hömrum í Hofi á miðvikudag í þessari viku, 19. mars. Á tónleikunum, sem hefjast kl. 20.00, koma fram nemendur á framhaldsstigi og er óhætt að lofa fjölbreyttum og skemmtilegum tónleikum, segir í tilkynningu frá skólanum. Aðgangur er ókeypis en tekið við frjálsum framlögum í Þorgerðarsjóð.
Þorgerðarsjóður var stofnaður fyrir hálfri öld í minningu Þorgerðar S. Eiríksdóttur með það að markmiði að styrkja til framhaldsnáms efnilega nemendur sem lokið hafa burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri. Á síðasta ári fékk stórefnilegur slagverksleikari, Matiss Leo Meckl, 400.000 króna styrk úr sjóðnum – sjá frétt um það hér:
Í síðustu viku var formlega gengið frá bakhjarlasamningi Norðurorku við Þorgerðarsjóð upp á 900.000 krónur og vonast stjórn sjóðsins til þess að mögulegt verði að veita tvo styrki í ár. Norðurorka hefur þegar greitt 500.000 krónur vegna síðasta árs, greiðir 200.000 kr. á þessu ári og sömu upphæð á því næsta.
Þorgerður S. Eiríksdóttir fæddist 20. janúar 1954 og lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri vorið 1971. Hún þótti mjög efnilegur píanóleikari og var nýkomin til Lundúnaborgar til að hefja framhaldsnám þegar hún lést af slysförum 2. febrúar 1972, aðeins 18 ára að aldri. Ári síðar stofnuðu aðstandendur Þorgerðar minningarsjóð ásamt Tónlistarfélagi Akureyrar, Tónlistarskólanum og kennurum við skólann.
Smellið á myndina hér að neðan til að sjá frekari upplýsingar um Þorgerði og sjóðinn