Þórarinn varpar ljósi á höfund þjóðsöngsins
Þórarinn Stefánsson píanóleikari leikur verk eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson í Hofi á sunnudaginn, og segir auk þess frá ævi og starfi tónskáldsins – höfundar þjóðsöngs Íslendinga. Tónleikarnir, sem hefjast klukkan 16.00, marka upphaf vetrardagskrár Tónlistarfélags Akureyrar.
„Auk þess að leika verkin mun Þórarinn segja frá ævi og starfi Sveinbjörns en hann mun vera fyrsta menntaða tónskáld Íslendinga,“ segir í tilkynningu frá Tónlistarfélaginu. Sveinbjörn var eitt afkastamesta tónskáld þjóðarinnar þegar kemur að píanótónlist; samdi á fimmta tug píanóverka, sem flest hafa hingað til legið óútgefin í handritasafni Þjóðarbókhlöðunnar.
„Engu að síður eru aðeins tvö þeirra nokkuð vel þekkt, Idyl og Vikivaki," segir í tilkynningu Tónlistarfélagsins. Nú hafi fjöldi handrita Sveinbjörns hins vegar „verið dregin upp úr kössum. Sveinbjörn Sveinbjörnsson er lítið þekkt tónskáld miðað við að hann sé höfundur þjóðsöngsins.“
Á tónleikunum verður flutt fyrsta tónverkið fyrir hljóðfæri sem samið er af Íslendingi, Menuet & Trio. Önnur verk sem munu hljóma eru Pastorale, Barcarolle og Álfadans. Auk þess eru á efnisskránni umritanir Sveinbjörns á eigin sönglögum og útsetningar á íslenskum og skoskum þjóðlögum.
- Tónleikarnir eru styrktir af Menningarfélagi Akureyrar, Félagi íslenskra tónlistarmanna og Tónlistarsjóði.
Tónleikarnir í Hofi hefjast klukkan 16.00. Miðaverð er 3000 krónur og 20% afsláttur fyrir félagsmenn í Tónlistarfélagi Akureyrar. Miðasala er í miðasölu Hofs og á mak.is.
Vert er að geta þess að Þórarinn flytur sömu dagskrá í Reykjahlíðarkirkju við Mývatn klukkan 17.00 á laugardaginn.
- Þórarinn Stefánsson hóf píanónám við Tónlistarskólann á Akureyri, en lauk kennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1987 undir handleiðslu Halldórs Haraldssonar.
- Þórarinn stundaði framhaldsnám í Hannover í Þýskalandi hjá Erika Haase prófessor og sótti auk þess einkatíma og námskeið hjá Colette Zérah, Edith Picht-Axenfeld og Vlado Perlemuter.
- Að námi loknu bjó Þórarinn og starfaði um nokkurra ára skeið í Þýskalandi og Danmörku.
- Þórarinn hefur komið fram á tónleikum víða um Evrópu sem einleikari og meðleikari með söngvurum og hljóðfæraleikurum. Hann hefur einnig skipulagt fjölda tónleika, meðal annars í Þýskalandi, Danmörku, Grænlandi og Færeyjum.
- Á síðustu árum hefur Þórarinn gefið út nótnabækur með íslenskri tónlist og leikið inná geisladiska. Hann vinnur nú að heildarútgáfu á píanóverkum Sveinbjörns Sveinbjörnssonar á bókum og CD.
- Þórarinn hefur gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þórarinn hlaut starfslaun listamanna árið 2007 og aftur árið 2014. Þórarinn Stefánsson kennir við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar.