Þjóðleikhúsið sýnir Prinsinn í Hofi
Prinsinn, nýtt, íslenskt leikrit eftir Maríu Reyndal og Kára Viðarsson, verður sýnt tvisvar á Akureyri í næstu viku, á miðvikudag og fimmtudag, 18. og 19. maí. Þjóðleikhúsið frumsýndi verkið 27. apríl í samstarfi við Frystiklefann á Rifi.
„Verkið byggir á reynslu Kára sem horfðist í augu við það nítján ára gamall að verða pabbi,“ segir í tilkynningu. „Hvað fer í gegnum huga ungs fólks á von á barni? Hversu góður dómari er maður í sinni eigin sök – og hversu áreiðanlegt vitni er maður í eigin sögu? María Reyndal leikstýrir verkinu, en auk Kára, leika Sverrir Þór Sverrisson, Sólveig Guðmundsdóttir og Birna Pétursdóttir í sýningunni.“
Spurt er: Er maður áreiðanlegt vitni í sinni eigin sögu? Er hægt að muna hlutina rétt?
„18 ára menntaskólastrákur er staddur á Laugaveginum í leit að töffaralegum fötum. Síminn hringir, þetta er sæta stelpan sem var að vinna á Prinsinum í sumar. „Ég er ólétt. Þú ert að verða pabbi.“ Andstæðar tilfinningar sækja að honum næstu mánuði. Ótti, afneitun, sjálfsvorkunn, kvíði, vonleysi, þunglyndi. Og svo byrjar hann að verða spenntur. Sátt, friður, bjartsýni, ábyrgðarkennd og tilhlökkun taka við. Ungi maðurinn ákveður með sjálfum sér að verða heimsins besti pabbi. En er hann örugglega sá eini sem kemur til greina sem faðir barnsins?
Tuttugu árum síðar, þegar ungi maðurinn er orðinn leikari og rekur lítið leikhús á landsbyggðinni, sest hann niður með leikstjóra og þau skoða þetta mál saman. Þau taka viðtöl við fólkið sem kemur við sögu. Ýmislegt óvænt kemur í ljós. Er maður áreiðanlegt vitni í sinni eigin sögu? Er hægt að muna hlutina rétt?“
Nánari upplýsingar hér á vef MAk