Fara í efni
Menning

Þjóðbúningadagur á Safnasafninu

Félagar í Dansfélaginu Vefaranum bjóða upp á danssýningu á Safnasafninu á morgun. Félagið hefur starfað á Akureyri í rúm 20 ár og komið víða fram, bæði innanlands og utan.

Þjóðbúningadagur verður á sunnudaginn á Safnasafninu á Svalbarðsströnd og jafnframt verður opnuð sýning á mynstrum og þjóðbúningum úr textíldeild Safnasafnsins.

Samkoman verður á milli klukkan 14.00 og 16.00. Allir eru velkomnir og í tilkynningu frá safninu er fólk af erlendum uppruna sérstaklega hvatt til að mæta í þjóðbúningi síns heimalands.

„Frábært tækifæri til að kynna sér íslenska þjóðbúninginn - og fyrir þá sem eiga hann að klæðast honum,“ segir í tilkynningunni.

  • Dansfélagið Vefarinn verður með dansatriði
  • Kristín Vala Breiðfjörð, formaður Heimilisiðnaðarfélagsins, ræðir áhrif Sigurðar Guðmundssonar málara á íslenska þjóðbúningasögu
  • Bryndís Símonardóttir kynnir hvítsaumsnámskeið vetrarins
  • Sýningaropnun í suðurstofu safnsins á mynstrum og þjóðbúningum úr textíldeild Safnasafnsins

Aðgangur er ókeypis og heitt verður á könnunni. Viðburðurinn er styrktur af Menningar- og viðurkenningarsjóði KEA.