Þjóðarópera í Hofi verði að veruleika
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, fagnar orðum Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um þjóðaróperu og hvetur til þess að óperan verði á Akureyri. Þetta kemur fram í grein bæjarstjórans í Morgunblaðinu í dag.
„Lilja sagði [þegar hún kynnti nýtt ráðuneyti] að vilji væri til að styðja við menningu víðar en á höfuðborgarsvæðinu og í því sambandi nefndi hún hugmyndina um þjóðaróperu í Hofi á Akureyri. Þá bætti hún við að lögð væri áhersla á að menningarhús á landsbyggðinni eflist og sóknaráætlanir landshluta verði styrktar,“ skrifar Ásthildur.
Þarna sé sáð fræi sem upp af geti sprottið fjölskrúðugt menningartré með traustar rætur í því góða og gróskumikla starfi sem þegar er unnið í Hofi. „Þar ber hæst starf Leikfélags Akureyrar, starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og upptökur á tónlist fyrir alþjóðleg kvikmyndaverkefni sem Atli Örvarsson og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hafa leitt með miklum sóma og sem hefur borið hróður Akureyrar um víða veröld.“
Hvetur Ásthildur til þess að menn einhendi sér í að gera góða hugmynd um þjóðaróperu í Hofi að veruleika.