Fara í efni
Menning

„Það er fyndið að vera misheppnaður“

Arnór Daði Gunnarsson, uppistandari. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Uppistandarinn Þórhallur Þórhallsson hefur verið með sýningu fyrir sunnan sem heitir „Segð' eitthvað fyndið“. Nú ætlar hann að freista þess að kitla hláturtaugar Norðlendinga á Græna hattinum, þegar hann treður upp á fimmtudagskvöldið. Hann stígur ekki á svið fyrir köldu húsi, vegna þess að heimamaðurinn og uppistandarinn Arnór Daði Gunnarsson ætlar að hita mannskapinn upp áður. En hver er þessi Arnór?

Mér fannst þetta eitthvað svo barnaleg hugmynd

Arnór kemur frá Hauganesi, en hefur búið mest á Akureyri, þó með hléum. Nú er hann fluttur aftur heim eftir höfuðborgardvöl, með eiginkonu og fjögurra ára dóttur. „Þegar ég var átján ára, sirka 2012-13, langaði mig fyrst til þess að verða uppistandari,“ segir Arnór. „Ég bjó þá hérna á Akureyri, en um þessar mundir hófst uppistandssena fyrir sunnan þar sem haldin voru opin kvöld þar sem hver sem er gat komið upp á svið og spreytt sig. Bylgja Babylons og Ari Eldjárn voru til dæmis að taka þátt í þessu. Mig langaði að flytja suður til þess að geta verið með, en fannst eitthvað kjánalegt að segja fólki að þetta væri ástæðan.“

Plan B var Kvikmyndaskólinn

„Mér fannst þetta eitthvað svo barnaleg hugmynd,“ segir Arnór. „Mér leið eins og fólk myndi líta niður á mig. Þannig að ég bjó mér til svona 'plan B', og sótti um í Kvikmyndaskólann, sem ástæðu til þess að flytja suður. Það kom reyndar í ljós að fólki fannst það alveg galin hugmynd líka!“ Blaðamaður furðar sig á því að hann hafi ekki bara sagst ætla í viðskiptafræði, en þá hlær Arnór og segir að enginn hefði trúað því. 

Meðfram náminu fór ég svo að spreyta mig í uppistandinu. En það tók mig eitt ár að þora upp á svið

„Ég fór semsagt í Kvikmyndaskólann og útskrifaðist 2018 úr leikstjórnar- og framleiðsludeild,“ segir Arnór. „Ég nýti námið heilmikið, mér finnst mjög gaman að skrifa og hef verið að búa til sketsa með vinum mínum og þá kemur þetta sér vel. Meðfram náminu fór ég svo að spreyta mig í uppistandinu. En það tók mig eitt ár að þora upp á svið.“

Sviðsskrekkur og erfið frumraun fyrir steggjunarhóp

„Ég átti alltaf mjög erfitt með að standa fyrir framan bekkinn minn í grunnskóla,“ segir Arnór. „Hvað þá að fara upp á svið og reyna að vera fyndinn. Ég var með mjög mikinn sviðsskrekk. Á þessu ári sem ég var að telja í mig kjark var ég duglegur að mæta á uppistand, nánast vikulega, og fylgdist vel með og kynntist fólki. Svo lét ég loksins verða af því að stíga upp á sviðið, 16. júní 2017,“ rifjar Arnór upp, en hann svaf nánast ekkert nóttina áður og segir að upplifunin hafi verið frekar slæm. „Áhorfendahópurinn samanstóð af steggjunarpartýi frá Dalvík sem voru búnir að djamma allan daginn og ég veit það í dag að það er ekki besti hópurinn. Eftir sýninguna var ég samt svo stoltur af sjálfum mér að hafa látið vaða.“

Námsskeið hjá Þorsteini Guðmunds

Næsta skref var svo að skella sér á uppistandsnámskeið hjá Þorsteini Guðmundssyni. „Þetta var frábært námskeið, við vorum tíu saman og í hvert skipti fórum við öll á svið og spreyttum okkur fyrir hvort annað,“ segir Arnór. „Í lok námskeiðsins héldum við uppistandskvöld og það er enn þann dag í dag besta kvöld sem ég hef átt á sviðinu. Ég flaug bara um á bleiku skýi og upplifunin var sú að allir hefðu skemmt sér konunglega.“ Eftir þessa upplifun segir Arnór að ekki sé aftur snúið. 

 

Arnór Daði á sviði. Mynd úr einkasafni.

„Þetta er bæði það skemmtilegasta og það mest krefjandi sem ég geri,“ segir Arnór, aðspurður um það hvernig það sé að vera uppistandari. „Tilfinningarnar geta farið mjög hátt upp eina stundina en svo langar mann kannski bara að stökkva fyrir lest þá næstu. En yfirhöfuð er þetta mjög gaman. Það er svo gaman að fá hugmynd, koma með hana til dæmis á uppistandskvöld og þá fær maður endurgjöf strax. Þetta er mikið spurning um stað og stund.“ Arnór segir að skemmtilegustu sýningarnar geti oft verið þegar hann er ekki með alveg geirneglt handrit, heldur sé líka að spjalla og spinna með.

Ég held að fólk tengi oft við kómíkina í því að líta kjánalega út eða að gera sig að fífli

Arnór segir að hann semji efni fyrir uppistand í töluverðu flæði, og tekur svo mið af viðbrögðum áhorfenda til þess að uppfæra efnið sitt jafnóðum. „Ég er yfirleitt að hripa niður hjá mér hugmyndir, bara nokkur orð yfirleitt til að byrja með. Mest kemur til mín þegar ég er að keyra eða eitthvað að brasa.“ 

„Grínið mitt er mjög mikið sótt í daglegt líf,“ segir Arnór. „Myndir úr hversdeginum, fylgst með fólki og hegðun þess. Segi sögur. Ég geri helst grín af sjálfum mér í allskonar aðstæðum. Misskilningur af ýmsum toga kemur gjarnan fyrir, og ég held að fólk tengi oft við kómíkina í því að líta kjánalega út eða að gera sig að fífli. Þetta er allt á mannlegu nótunum.“ Arnór tekur dæmi um atvik sem hann lenti í, þegar hann ætlaði að henda tyggjói á flugvelli, en tyggjóið festist við puttana og gamall maður sem sat við rusladallinn fylgdist grannt með. „Ég reyndi og reyndi, en tyggjóið var pikkfast, þangað til ég gafst upp og stakk því aftur upp í mig. Þetta horfði hann alltsaman á með athygli.“ 

„Mér leið kjánalega eftir þetta, sem og eftir margt annað sem ég lendi í, en svo þegar ég sagði söguna í einhverju partýi og uppskar mikinn hlátur fyrir, fór mér að líða betur,“ segir Arnór. „Og það er nú einmitt málið, þetta er fyndið. Allur svona kjánalegur vandræðagangur er fyndinn. Það er fyndið að vera misheppnaður.“

Fyndið fólk á Norðurlandi óskast

Arnór dreymir um að það verði til einhver uppistandssena á Akureyri í framtíðinni. „Ef einhverjir hérna fyrir norðan ganga með uppistandsdrauma í maganum eins og ég gerði, þá væri gaman að heyra frá þeim,“ segir Arnór Daði að lokum.

 

Þegar þetta er skrifað er ennþá eitthvað laust á uppistand Þórhalls Þórhallssonar á Græna hattinum, þar sem Arnór Daði verður að hita upp. Miða má nálgast hérna.