Fara í efni
Menning

Tawczynski opnar sýningu í Deiglunni

Bandaríska myndlistarkonan Jessica Tawczynski hefur dvalið í gestavinnustofu Listasafnsins undanfarnar vikur. Í dag, laugardag 4. september, klukkan 12.00 opnar hún sýningu í Deiglunni undir yfirskriftinni Lost At Sea/Týnd í Hafi þar sem hún sýnir afrakstur vinnu sinnar á Akureyri. Sýningunni líkur miðvikudaginn 8. september.

„Verk Tawczynski bera með sér sterka vísun til náttúrunnar, sem er megin viðfangsefni listakonunnar. Verkin á sýningunni hafa það markmið að afhjúpa hinn æðri kvenlæga kraft (Divine Feminine power) sem móðir náttúra býr yfir. Íslensk náttúra er einstök og í gegnum aldirnar hefur móðir náttúra verið tákn um frjósaman kvenleika og miskunnarlausan kraft. Þetta eru hugmyndir sem listakonan vinnur með í verkum sínum,“ segir í tilkynningu. 

Jessica Tawczynski býr og starfar í Brooklyn í New York í Bandaríkjunum. Hún lauk MFA gráðu frá Massachusetts College of Art and Design og BFA gráðu frá UMass Lowell. Hún hefur sýnt víða á Íslandi, Bandaríkjunum og víðar.

Verk eftir Tawczynski er einnig að finna á sýningunni Nýleg aðföng sem stendur yfir í Listasafninu fram í nóvember 2021.