Fara í efni
Menning

Tæring er í raun ólýsanleg upplifun

Ljósmyndir: María Kjartansdóttir

Sýningar á sviðslistaverkinu Tæringu, sem innblásið er af sögu berklasjúklinga sem dvöldu á Kristneshæli á síðustu öld, hefjast á ný í kvöld. Sýnt er á Hælinu á Kristnesi, setri Maríu Pálsdóttur um sögu berklanna.

Tæring þykir afar sérstakt og áhrifamikið verk, sem frumsýnt var haustið 2020 en sýningum var fljótlega hætt vegna Covid. Einungis er pláss fyrir 10 áhorfendur og þegar einungis máttu 10 koma saman var sjálfhætt, því leikarar eru sex og teljast með vegna þess hve leikið er í litlu rými. Verkið er samsköpun allra þátttakenda og er sérstaklega unnið inn í sýningarrýmið þar sem leiknum senum er blandað við vídeóverk og hljóðverk og einnig fara einhver atriði fram utandyra sem áhorfendur sjá út um glugga.

Talar óvart inn í samtímann

María Pálsdóttir er leikkona og strax þegar hún undirbjó Hælið, kaffihús og sögusetur um berkla, hafði hún hug á að bjóða upp á eitthvað leikhústengt á staðnum. Til að tengja verkið sögu berklanna var María ákveðin í því að áhorfendur yrðu með grímu, áður en landanum var gert að bera þær í tíma og ótíma vegna Covid. „Því má segja að verkið tali óvart beint inn í samtímann; það varpar í raun ljósi bæði á Covid og berklana,“ segir María við Akureyri.net.

Leið eins og ég væri draugur

Tæring hlaut frábæra dóma í fyrrahaust.

„Þetta var í rauninni ólýsanleg upplifun. Mér leið eins og ég væri draugur, ósýnileg vofa þar sem ég leið milli vistarveranna og tók inn öll skilaboðin sem gengu á mér, miskunnarlaust,“ sagði Silja Aðalsteinsdóttir í umsögn um Tæringu í Tímariti máls og menningar. 

„Lengi tókst mér að hemja tilfinningarnar en það var erfitt að gráta ekki örlög ungu móðurinnar (Birna Pétursdóttir, frábær) undir lokin. Árni Beinteinn, Sjöfn Snorradóttir og Stefán Guðlaugsson snurtu mann líka djúpt með innlifuðum leik sínum og Kolbrún Lilja var ósérhlífnin og skörungsskapurinn uppmálaður í hlutverki Vilborgar. Búningar Auðar Aspar Guðmundsdóttur voru vel hugsaðir og leikmyndin sannfærandi. Vídeóverk Maríu Kjartansdóttur með fleiri leikurum víkkuðu og breikkuðu verkið enda smekklega notuð til að fjölga þátttakendum og stækka þröngt rýmið,“ sagði Silja.

Tæring er samstarfsverkefni Hælisins og Leikfélags Akureyrar og hefur hlotið styrki frá Leiklistarráði og Sóknaráætlun. Framundan eru sex sýningardagar og eru tvær sýningar hvern dag, klukkan 19.30 og 21.00. Sýningarnar verða í kvöld og á morgun, 25. og 26. ágúst, 1. og 2. september og 16. og 17. september.

Leikarar eru Birna Pétursdóttir, Kolbrún Lilja Guðnadóttir, Sjöfn Snorradóttir, Árni Beinteinn, Stefán Guðlaugs, Sigríður Birna Ólafsdóttir og Ronja Sif Björk. Listrænir sjórnendur sýningarinnar eru Vala Ómarsdóttir leikstjóri, Vilhjálmur B. Bragason leikskáld, Auður Ösp Guðmundsdóttir leikmynda- og búningahönnuður, María Kjartansdóttir vídeólistakona og ljósmyndari og Biggi Hilmars tónlistarmaður. Framleiðandi og upphafsmaður er María Pálsdóttir.