Sýning til heiðurs Billu og minningarsjóður
Myndlistarsýning sem haldin er til heiðurs Billu (Bryndísi Arnardóttur) sem lést í ágúst 2022 verður opnuð í Listagilinu í dag. Sýningin, sem er bæði í Deiglunni og Mjólkurbúðinni, verður opnuð klukkan 16.00 og stendur til sunnudags.
Þá hefur verið stofnaður Minningarsjóður í nafni Bryndísar. Markmið sjóðsins er að styðja upprennandi listakonur á öllum aldri með því að veita fjárhagslega styrki. Sjóðurinn er opinn fyrir umsóknir fyrir skólaárið 2023 - 2024. Nánar upplýsingar á minningarsjodurba.is
Í tilkynningu um sýninguna segir:
„Bryndís var menntaður myndlistarmaður með meistaragráðu í kennslufræðum (listgreinum). Billa var stofnandi Listfræðslunnar þar sem námið „Fræðsla í formi og lit“ á rætur sínar. Margir myndlistarhópar hafa orðið til vegna starfs hennar og standa þeir að myndlistarsýningunni til að heiðra minningu hennar og hversu mikil áhrif hún hafði á nemendur sína og menningarlíf í sínu umhverfi. Auk þess að vera stofnandi Listfræðslunnar kenndi hún við háskóla í Orlando, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Símey og víðar. Billa sinnti sínu starfi af mikilli hugsjón og atorkusemi. Viðhorfi hennar er best lýst með eftirfarandi tilvitnun í hana: Listþörfin er afar sterkt afl og gefur skapandi einstaklingum þrek til þess að afla sér þekkingar á sviði myndlistar sem krefst sjálfsaga og djúpra innri átaka við að greina og miðla hugmyndum sínum á skapandi, frjóan og frumlegan hátt.“