Fara í efni
Menning

Syngjandi kátur í sundlaugum Akureyrar

Gísli Rúnar spilar á gítar, hefur áhuga á menningarmálum og sér fyrir sér að sundlaugar Akureyrar geti vaxið á mörgum sviðum. Mynd: hrisey.is og Skapti Hallgrímsson

Gísli Rúnar Gylfason, nýr forstöðumaður sundlauga Akureyrar, tók fyrsta opinbera embættisverk sitt í nýju starfi með trompi. Á 60 ára afmælishátíð sundlaugarinnar í Hrísey tók hann upp gítarinn og spilaði og söng fyrir sundlaugargesti.

„Ég er trúbador og hef verið að spila hér og þar undanfarin 20 ár. Gítarinn fylgir mér nánast hvert sem ég fer. Ég hef svo sem ekkert verið að sinna trúbador starfinu af einhverri hörku, þetta er meira ef ég er beðinn,“ segir Gísli Rúnar. Þegar Elín H. Gísladóttir, fyrrum forstöðumaður sundlauga Akureyrar, bað hann um að taka lagið á 60 ára afmælishátíð sundlaugarinnar í Hrísey á fyrstu dögum hans í starfi segir Gísli að það hafi verið auðsótt mál. Það má því með sanni segja að Gísli Rúnar hafi komið syngjandi til starfa til Akureyrarbæjar.

Forveri Gísla Rúnars, Elín H. Gísladóttir, hafði verið 17 ár í starfi forstöðumanns. Gísli Rúnar segist taka við góðu búi með góðum starfsanda. 

Sundlaugin er griðastaður

Aðspurður hvort Akureyringar megi búast við fleiri uppákomum í þessum dúr frá honum segir hann að ekkert slíkt sé á döfinni en þó er ekki ólíklegt að svo verði. „Það er bara ég. Ég er félagströll og er alltaf tilbúinn til að taka þátt í öllu. Ég hef hingað til verið pínu menningar
megin í lífinu, tekið þátt í leikfélagsstarfi og verið í alls konar menningartengdum verkefnum, og hef mjög gaman af slíku. Sundlaugarnar geta verið flottur vettvangur fyrir menningartengda starfsemi og hafa oft verið nýttar fyrir alls konar uppákomur. Nú nýlega var t.d. bæjarlistamaður Akureyrar með gjörning hér á sundlaugarbakkanum. En þetta er fín lína því sundlaugarnar eru líka athvarf sundlaugargesta og þeir þurfa að fá að vera í friði. Við leggjum mikla áherslu á að það sé ekki mikið áreiti á gesti, að vera ekki með auglýsingar eða glymjandi tónlist í græjunum, af því þetta er griðastaður. Við megum ekki fara of langt í þessum málum en það er alltaf gaman að breyta aðeins til.“


Gísli Rúnar hefur starfað við íþrótta- og æskulýðsstarf alla sína starfsævi. 

Gísli Rúnar hefur nú verið í starfi sem forstöðumaður sundlauga Akureyrar í tæpa tvo mánuði og kann vel við sig. Aðsókn sumarsins hefur verið mikil og góð, eins og alltaf á sumrin, og í mörg horn að líta. „Ég er klárlega að taka við mjög góðu búi með góðum starfsanda. Það er búið að halda vel utan um verkefnin hérna og fólkið. En vissulega eru alltaf breytingar og tækifæri sem fylgja nýju fólki enda líka stanslaus þróun og gerjun í þessum geira almennt,” segir Gísli Rúnar.

● Þrettán sóttu um starfið. Sjá fyrri frétt Akureyri.net


Keyrir frá Dalvík á hverjum morgni

En hver er Gísli Rúnar og hvaðan er hann að koma? Jú, keyrandi frá Dalvík alla daga þar sem hann heldur heimili ásamt eiginkonunni, Agnesi Ýr Sigurjónsdóttur, sem rekur fyrirtækið Draumablá. Börnin eru fjögur, á aldrinum 11-20 ára. „Ég er Ólafsfirðingur, fæddur og uppalinn, árgerð 1980. Ég var íþrótta- og æskulýðsfulltrúi í Ólafsfirði í 10 ár. Þaðan fór ég á Dalvík fyrir 10 árum síðan og tók við stöðu æskulýðsfulltrúa. Ég er því búinn að vera í íþrótta- og æskulýðsstarfi og þessum sundlaugabransa meira og minna alla mína starfsævi. Ég þekki því þetta umhverfi vel,“ segir Gísli Rúnar og heldur áfram. „Svo þegar þessi forstöðumannsstaða losnaði þá fannst mér þetta tækifæri bara svo áhugavert að ég ákvað að prófa að sækja um. Þetta starf er að hluta til líkt því sem ég hef fengist við áður. Í hinum sveitar-félögunum hef ég verið með félagsmiðstöðvarnar, ungmennaráð og menningartengd verkefni. Hér er það bara sundlaugin en á hinum stöðunum var þetta meira blandað. Sundlaugarhlutinn er sem sagt eins, nema hér er þetta allt miklu viðameira. Mér fannst spennandi að geta einbeitt mér að einu starfssviði, þ.e.a.s. þessum fjórum sundlaugum sem Akureyrarbær rekur [Sundlaug Akureyrar, Glerárlaug og laugarnar í Hrísey og Grímsey] og það rak mig til að sækja um,“ segir Gísli Rúnar afar sáttur á nýjum stað.