Sýna brot af mjög miklu safni grafíklistar
Um helgina verða 43 grafíklistaverk sýnd í Deiglunni. Verkin eru öll í eigu hjónanna Hildar Maríu Hansdóttur og Guðmundar Ármanns Sigurjónssonar sem safnað hafa grafíkverkum undanfarin 55 ár. Með sýningunni vilja þau vekja athygli á grafíklistinni og stöðu hennar á Íslandi.
Sýningin ber heitið Úr handraðanum og á nafnið vel við því verkin eru aðeins brotabrot af stóru safni þeirra hjóna á grafík listaverkum sem geymd eru í skúffum, skotum og á veggjum heimilis þeirra í Listagilinu. Verkin eru mjög fjölbreytt og eru bæði eftir innlenda og erlenda listamenn, m.a. Braga Ásgeirsson, Jón Engilberts, Dröfn Friðfinnsdóttur og Ástu Sigurðardóttur. Þá eru á sýningunni einnig nokkur þrykk eftir óþekkta bókargerðarmenn úr Prentverki Odds Björnssonar, myndskreytingar sem skornar voru í linoleumdúk. Sýningarstjórar á sýningunni eru dætur þeirra hjóna, Elsa María og Þorbjörg Guðmundsdætur.
Hafa safnað grafíkverkum lengi
Ekki er langt síðan hjónin hófu skrásetningu á grafíksafni sínu en fyrstu verkin sem komust í þeirra eigu eru frá árunum um 1969 þegar Guðmundur skipti á verkum við samnemendur sína í grafíkdeild Valands Listaskólans í Gautaborg. Síðan þá hafa alls konar grafíkverk bæst við safnið, oftar en ekki sem skipti við aðra listamenn eða gjafir, en eins hefur Hildur í seinni tíð verið mjög dugleg að vakta uppboðsvefi. Telja þau að þau eigi líklega verk eftir hátt í 100 grafíklistamenn og fleiri en eitt verk eftir eftir marga þeirra.
Á sýningunni eru verk eftir þekkta grafíklistamenn en einnig nokkur þrykk eftir óþekkta bókargerðarmenn úr Prentverki Odds Björnssonar, sem Guðmundur Ármann hirti úr rusli á sínum tíma.
Heillandi listform
Þegar Guðmundur er beðinn um að útskýra hvað grafíklist sé þá segir hann að það sem einkenni listformið sé sú staðreynd að það sé hægt að þrykkja mörg eintök af hverju verki. Verkin eru unnin með því að rista, eða æta mynd í þar til gerða grafíkplötu, sem getur t.d verið úr málmi, steini, tré, eða línóleum dúk. Litur er síðan borinn á plötuna og mynd þrykkt á pappír, efni eða annað undirlag með aðstoð grafíkpressu. Útkoman er háð aðferðunum og efnunum sem notuð eru hverju sinni en aðferðir grafík listarinnar eru margskonar. Hjónin eru sammála um að grafíklistin sé mjög heillandi listform. Hins vegar sé staða listgreinarinnar á Íslandi ekki nógu góð. Engin formleg kennsla á háskólastigi hefur verið í listgrafík síðan Myndlistar- og handíðaskóli Íslands rann inn í Listaháskólann um aldamótin 2000 og segjast þau hafa áhyggjur af þróuninni á þessari merku grein myndlistar.
- Nánar verður rætt um stöðu grafíklistarinnar við hjónin í viðtali sem Akureyri.net mun birta um helgina.
Verkið „Á förnum vegi Bandingi II“ eftir myndlistarkonuna Sigrid Valtingojer. Verkið er í miklu uppáhaldi hjá Hildi sem segir það dulúðugt og fallegt.
Mikil vinna á bak við eitt þrykk
Akureyri.net fékk þau Guðmund og Hildi til að velja sitt uppáhaldsverk á áðurnefndri sýningu, sem verður opin alla helgina. Hildur var snögg að velja sitt verk en það er jafnframt hennar nýjustu listaverkakaup á uppboðsvef á netinu. Verkið heitir „Á förnum vegi Bandingi II“ og er eftir myndlistarkonuna Sigrid Valtingojer sem lést árið 2013. „Þessi mynd er svo dulúðug. Handbragðið er mjög fíngert og viðfangið situr svo fallega í miðjum fletinum. Það sýnir svo mikla þekkingu hvernig myndbygging er, staðsetningin og ljósið. Myndin er elegant og fögur og höfðar mjög til mín,“ segir Hildur.
Myndin sem Guðmundur Ármann velur er af allt öðrum toga. Hún er eftir Finnann Antti Salokannel sem er best þekktur fyrir messotintur sínar. „Ég vel þessa mynd því ég veit hvað það er mikil vinna á bak við eitt svona þrykk. Fyrir utan hvað það er mikil vinna fólgin í því að búa til mótið. Það er alveg ævintýri. Ég held ég megi segja að í grafíksögunni þá sé þetta með stærri messotintum sem til eru. Svo finnst mér líka sagan á bak við verkið skemmtileg en listamaðurinn sagði mér hana sjálfur. Þetta eru sem sagt blúndur sem hann átti eftir ömmu sína, blúndur úr fötum hennar. Hann gerði seríu með þessu og þetta er ein af þeim myndum.“
- Sýningin Úr handraðanum verðu opin á föstudag milli kl. 16 og 18 í Deiglunni, og á laugardag og sunnudag milli kl. 14 og 17.
Aðferðirnar sem notaður eru í listgrafík eru margar. Þetta verk er svokölluð messotinta og er í uppháldi hjá Guðmundi. Verkið er eftir Finnann Antti Salokannel.