Fara í efni
Menning

Sundrar og einangrar sameiningartáknið?

Leikritið Halastjarna verður frumsýnt í Hlöðunni, Litla-Garði, á föstudagskvöldið. Efni sýningarinnar er unnið upp úr textum breska leikskáldsins Kierans Knowles, sem er eitt af eftirtektarverðustu ungu leikskáldum Bretlands um þessar mundir, að því er segir í kynningu.

„Verkið Halastjarna er leiksýning með tveimur leikurum og öflugu sjónarspili með aðstoð myndbanda og lýsingar. Efnistök þess eru bergmálshellar internetsins, félagsleg einangrun í nútíma tæknisamfélagi, stöðug þörf manneskjunnar til að öðlast viðurkenningu og hugmyndir sem æða stjórnlausar áfram,“ segir í tilkynningu. „Tvö af megin-rannsóknarefnum sýningarinnar eru einangrun og áhrif samfélagsmiðla á venjulegt fólk á viðkvæmum tímum. Hefur markmið internetsins náð að verða sín eigin andhverfa? Er hið öfluga og ávanabindandi sameiningartól í raun á góðri leið með að sundra okkur og einangra frekar, í nafni stafrænna tenginga? Getur hið alræmda like-hagkerfi fengið fólk til að gera hvað sem er þegar verðlaunin eru almenn viðurkenning?“

Leikarar eru hjónin Einar Aðalsteinsson og Anna Gunndís Guðmundsdóttir, frumsamin tónlist er eftir Birnu Eyfjörð Þorsteinsdóttur, tæknistjóri og ljósahönnuður er Þóroddur Ingvarsson og leikmynd og búninga hannar Hrönn Blöndal Birgisdóttir.

Leikstjórinn er Anna María Tómasdóttir. Hún leikstýrði m.a. The Last Kvöldmáltíð, sem fékk fjórar tilnefningar til Grímunnar, íslensku sjónlistaverðlaunanna, og Anna María vann við Dýrið, kvikmyndina sem vann frumleikaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Cannes á dögunum.

Frumsýning er á föstudaginn sem fyrr segir. Önnur sýning verður föstudaginn 6. ágúst, klukkan 20.00 og sú þriðja laugardaginn 7. ágúst klukkan 20.00. Vegna samkomutakmarkana verða einungis seldir 35 miðar á hverja sýningu.

Hér er hægt að kaupa miða á sýninguna. Fram kemur í tilkynningu að hægt er að nota ferðagjöfina til að kaupa miða.