Fara í efni
Menning

Sumardagurinn fyrsti gleðilegur í Sigurhæðum

Þorbjörg Þóroddsdóttir og Egill Logi, nýjustu höfundar Pastel-ritraðar. Mynd: aðsend
Sumardagurinn fyrsti verður gleðilegur í Sigurhæðum, þar sem haldið verður útgáfuhóf tveggja nýrra Pastel-rita. Það er ungt listafólk af svæðinu sem gefur út sitt hvort ritið. Í fréttatilkynningu segir að húsið verði opið frá 11 - 17, en höfundar nýju ritanna stíga á stokk kl. 13 og kynna verk sín.
 
Egill Logi, a.k.a. Drengurinn Fengurinn, er tónlistar- og myndlistarmaður. Rit hans, Hohner mér vel, verður númer 36 í ritröð Pastel. Egill er hluti af hópi listamanna sem starfar í Kaktus í listagilinu.
 
Þorbjörg Þóroddsdóttir er 19 ára ungskáld frá Akureyri. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri í fyrra, stundaði nám við lýðháskóla á Jótlandi í haust og vinnur nú á leikskóla. Hún hefur unnið til þrennra verðlauna í ritlistasamkeppni Ungskálda. Verk Þorbjargar, Vögguvísuatómapar, er Pastel nr. 37.
 
Hægt er að sjá meira um Pastel ritröð á www.pastel.is.
 
Í Menningarhúsi í Sigurhæðum opnar svo ný sýning formlega í maí. Í fréttatilkynningunni segir að undirbúningur sé í fullum gangi og gestum og gangandi því líka boðið í heimsókn í vinnuferlið núna á sumardaginn fyrsta. Það verður jafnvel hægt að kíkja inn á vinnustofur á annarri hæð þar sem listamenn, hönnuðir og hugmyndasmiðir hafa vinnuaðstöðu.
 
Dagskráin er hluti af Eyfirska safnadeginum og eru fleiri sýningar, setur og söfn í Eyjafirði opin almenningi að kostnaðarlausu þennan dag.