Styrktartónleikaröð Lögmannshlíðarkirkju
Fimmtudaginn 11. nóvember verða tónleikar í Glerárkirkju, þeir fyrstu í tónleikaröð sem standa mun út komandi ár. Velunnarasjóður Lögmannshlíðarkirkju stendur að að þessari tónleikaröð, sem haldin er til að safna fé til viðhalds á kirkjunni.
Lögmannshlíðarkirkja verður 161 árs nú í upphafi aðventu og hefur eins og margir vita lengi verið kirkja þeirra sem bjuggu norðan Glerár og þjónar enn hluta sóknarstarfsins utan ár. Kirkjumálararnir Snorri Guðvarðsson og Kristjana Agnarsdóttir hafa um árabil sinnt viðhaldi kirkjunnar, en nú mun komið að því að grípa til stórtækari verka við að styrkja viði hennar og lagfæra sökkulinn undir henni, svo tryggja megi að hún standi af sér veður og vinda, eins og segir í tilkynningu um tónleikaröðina. Það er reyndar téður Snorri sem hefur verið hvatamaður að stofnun Velunnarsjóðsins og hann mun koma fram á þessum tónleikum með Krossbandinu sínu, Kvennakór Akureyrar og séra Oddi Bjarna Þorkelssyni.
Að sögn Snorra er stefnt að 4-5 tónleikum í röðinni. Krossbandið hans verður það eina sem kemur fram á öllum tónleikunum en margir og ólíkir kraftar munu leggja sitt af mörkum. Þess vegna má búast við mjög fjölbreyttri tónlist. Á upphafstónleikunum verður Krossbandið fyrst og síðast en Kvennakór Akureyrar syngur nokkur lög undir stjórn Valmars Väljaots og séra Oddur Bjarni tekur fáein lög líka. Séra Sindri Geir Óskarsson mun kynna og þarna verður boðið upp á kaffiveitingar.
Í tilkynningu frá félaginu segir: „Við viljum varðveita Lögmannshlíðarkirkju og sögu hennar. Því blásum við til þessara fyrstu styrktartónleika af mörgum og bjóðum ykkur að styðja við Velunnarasjóð Lögmannshlíðarkirkju með því að eiga þessa kvöldstund með okkur.
Aðgangsgjald verður 2.500 krónur eða frjáls framlög, það verður posi á staðnum.“