Fara í efni
Menning

Strangar æfingar fyrir karnival í Gilinu

Listagilið verður litríkt um helgina með karnivali sem Kaktus, Gilfélagið, Rösk og Grillstofan standa sameiginlega að til að búa til skemmtilega umgjörð og stemningu fyrir unga sem aldna. Mysingur býður í tónlistarveislu í Mjólkurportinu, námskeið verður fyrir börn á öllum aldri og sýningar opnaðar í Mjólkurbúðinni, Kaktus og Deiglunni.

Karnivalið hefst kl. 19:30 á föstudagskvöld og lýkur kl. 17 á sunnudag, en það markar jafnframt lokahelgi Listasumars. Gilið verður lokað fyrir bílaumferð kl. 14-18 á laugardag, en hægt að komast í bílastæði efst í gilinu. 

Stofutónleikar Viktors Orra og Álfheiðar Erlu verða í Davíðshúsi kl. 20 á laugardag og á sunnudag verða lokatónleikar Sumartónleika í Akureyrarkirkju kl. 17 en að þessu sinni ætla Ásta Soffía og Sigríður Íva Þórarinsdóttir að spila Íslensk og norsk þjóðlög.

Aðstandendur karnivalsins hafa verið við æfingar og undirbúning í vikunni og fengum við myndina með fréttinni lánaða af Facebook-síðu Gilfélagsins/Deiglunnar. Þar eru meðal annars eftirfarandi upplýsingar fyrir þessa litríku helgi:

Í Deiglunni hefjast leikar kl. 19.30 á föstudagskvöld með opnun á massífri innsetningu á tónlistarmyndböndum með listafólki sem margt hefur sterka tengingu við gilið. Þáttakendur eru: Egill Logi-Drengurinn fengurinn, Fríða Karlsdóttir, Steinun Arnbjörg Stefánsdóttir, Ólöf Sigríður Valsdóttir, Brenndu Bananarnir, Tonnatak, Þorsteinn Gíslason, Magnús Helgason, Arna Guðný Valsdóttir, Helgi og Hljóðfæraleikararnir og Aðalsteinn Þórsson. Dagskráin samanstendur af fjölda myndbanda og eiga sumir listamennirnir fleiri en eitt og fleiri en tvö og jafnvel á annann tug sá duglegasti. Sýningin rúllar svo alla helgina og lýkur kl 17 á sunnudaginn.

Á Laugardag kl. 14 hefst námskeið í grímugerð fyrir börn og eiginlega alla fjöldskylduna, sem stendur til kl. 17. Um kvöldið verður svo dansað í Deiglunni eins lengi og fæturnir bera. Karnivalklæðnaður æskilegur, reyndar fyrir hátíðina alla. Á sunnudag verða tónlistarmyndbönd í Deiglunni kl. 11-17.