Fara í efni
Menning

Strandhandboltamót um verslunarmannahelgina

Áhugamenn um strandhandbolta geta tekið gleði sína því keppt verður í þessari skemmtilegu íþrótt í Kjarnaskógi um verslunarmannahelgina, eins og undanfarin ár.

Það er kvennalið KA/Þórs sem heldur mótið, sem verður hluti fjölskylduhátíðarinnar Einnar með öllu. Fullorðinsmót verður á laugardeginum og krakkamót daginn eftir.

Í tilkynningu kemur fram að færri hafi komist að en vildu á síðasta ári og áhugasamir því hvattir til að skrá sig til keppni sem fyrst.

Strákar og stelpur saman

Mótið verður spilað á strandblaksvöllunum í Kjarnaskógi og verður leikið í blönduðum flokki, það er að segja strákar og stelpur munu spila saman. Fjórir eru inná í hverju liði, þar af einn í marki.

„Strandhandbolti hefur notið gríðarlegra vinsælda hér á landi undanfarin ár og lofum við miklu stuði enda ræður léttleikinn ríkjum í sandinum. Flott mark gildir tvöfalt og því um að gera að sýna sínar bestu hliðar, við lofum svo að sjálfsögðu mikilli sól!“ segir í tilkynningu frá KA/Þór.

  • Fullorðinsmótið, fyrir þau sem fædd eru 2008 og fyrr, fer fram laugardaginn 3. ágúst.
  • Þátttökugjaldið er 25.000 krónur á lið og er hámark 5 í hverju liði.
  • „Innifalið í gjaldinu er léttar veitingar og nóg af ísköldum drykkjum. Vegleg verðlaun verða veitt fyrir sigurliðið og einnig fyrir bestu tilþrifin og bestu búningana,“ segir í tilkynningu.
  • Krakkamót, fyrir þau sem fædd eru 2009 - 2015, fer fram daginn eftir, sunnudaginn 4. ágúst í samvinnu við Eina með öllu og árlegan Skógardag Skógaræktarfélags Eyfirðinga, sem verður þann dag.
  • Að minnsta kosti þurfa fjórir leikmenn að vera í hverju liði og leikur markmaður með í sókninni.
  • Þátttökugjaldið er 15.000 krónur á lið og er hámark 5 í hverju liði. Innifalið í gjaldinu er pítsuveisla.
  • Skráning fer fram hjá agust@ka.is og mikilvægt er að taka fram nafn á liði við skráningu, að því er segir í tilkynningunni.