Fara í efni
Menning

Sterk viðbrögð: Þið eruð boðberar vonar!

Sinfóníuhljómsveit Íslands kemur fram á tónleikum í Hofi á föstudaginn, 16. júní, þar sem hún leikur þrjú verk undir stjórn Barbara Hannigan, sem stjórnar reyndar ekki einungis hljómsveitinni heldur syngur í einu verkinu. Ótrúlegt, en satt – og það ku vera mögnuð upplifun, því Hannigan er stórkostleg söngkona og hafði löngu slegið í gegn sem slík áður en hún snéri sér einnig að hljómsveitarstjórn. Þessi mikli, kanadíski listamaður stjórnaði Sinfóníuhljómsveitinni á Listahátíð í Reykjavík á síðasta ári við fádæma góðar undirtektir.

Nánar um tónleikana í Hofi síðar en gaman er að geta þess, í tilefni heimsóknar hljómsveitarinnar norður, að hún fór í tónleikaferð um Bretland fyrr á árinu og hlaut frábærar viðtökur áhorfenda og glimrandi góða dóma í mörgum fjölmiðlum. Alls mættu um 9.000 manns á tónleika í sjö borgum; hljómsveitin kom m.a. fram í Cadogan Hall í Lundúnum, Symphony Hall í Birmingham, Bridgewater Hall í Manchester og Usher Hall í Edinborg.

Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

„Þið hafið gefið mér vonina aftur“

Akureyringurinn Herdís Anna Jónsdóttir, víóluleikari í Sinfóníuhljómsveitinni, segir ferðina hafa verið magnaða og eftirminnilega. „Við spiluðum í Bretlandi rétt áður en Covid faraldurinn skall á, sú tónleikaferð heppnaðist mjög vel, en mér fannst ég skynja að eitthvað hefði gerst í millitíðinni; ekki bara Covid, heldur fannst mér ástandið á einhvern hátt dapurt í Bretlandi. Kannski vegna Brexit,“ segir Herdís við Akureyri.net um ferðina í vetur.

„Salirnir voru ekki fullir nema í London, en tónleikarnir samt mjög vel sóttir miðað við það sem gengur og gerist, en það sem kom mér þægilega á óvart var að við höfðum greinilega mjög sterk áhrif á tónleikagesti. Fólk var svo þakklátt, það beið eftir okkur og þakkaði innilega fyrir. Sumir sögðu að tónleikarnir hefðu hreinlega breytt lífi þeirra! Maður í Birmingham sagði: Ég mun aldrei gleyma þessu kvöldi. Þið hafið gefið mér vonina aftur – mér finnst þið boðberar vonarinnar.“

Sannarlega ekki dónalegt að fá slík viðbrögð og greinilegt að tónleikagestar í Hofi mega eiga von á góðu!

Frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Bretlandsferðinni. Konsertmeistarinn, Sigrún Eðvaldsdóttir, fremst á myndinni.

Hrifin inn í annan heim

Gagnrýnendur voru ekki síður hrifnir en aðrir tónleikagestir. Gagnrýnandi The Herald Scotland sagði meðal annars:

„Tónleikagestir í Edinborg geta verið hlédrægir, en þetta síðdegi einkenndist andrúmsloftið af eftirvæntingu, rétt eins og allir vissu fyrirfram hversu framúrskarandi tónleikar væru í aðsigi.

[Metacosmos] var flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Evu Ollikainen, sem stýrði efnisskránni af krafti og þokka aðalballerínu. Þá hljómaði Píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov, sem margir þekkja úr Brief Encounter, með Sir Stephen Hough við hljómborðið. Að þeim flutningi loknum mátti heyra stappað og klappað í áköfum fagnaðarlátum.

Maður hélt að tónleikarnir gætu ekki batnað – en það var afsannað með fjörlegum og töfrandi flutningi hljómsveitarinnar á fimmtu sinfóníu Tsjajkofskíjs. Þegar við héldum aftur út í svalt Edinborgarkvöldið var eins og við hefðum um stundarsakir verið hrifin inn í annan heim.“