Splunkuný tónlist við 100 ára gamla bíómynd
Nú er komið að nýrri fumsýningu á Sögu Borgarættarinnar, endurgerðri hundrað og eins árs gamalli kvikmynd, með splunkunýrri tónlist Þórðar Magnússonar leikinni af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Í stað fyrirhugaðrar tónleikasýningar í Hofi á Akureyri verður myndin með nýju tónlistinni nú sýnd samtímis í Hofi á Akureyri, í Bíó Paradís í Reykjavík og í Herðubíói á Seyðisfirði, sunnudaginn 3. október. Miðar fást á tix.is
Saga Borgarættarinnar er stórmerkileg kvikmynd. Hún markar upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi því þegar hún var tekin upp hér á Íslandi árið 1919 hafði aldrei áður verið tekin upp leikin kvikmynd á landinu. Það voru reyndar Danir sem gerðu myndina, Nordisk Film Kompagni, en Saga Borgarættarinnar er upprunalega fjögurra binda skáldsaga Gunnars Gunnarssonar, sem um langt árabil var starfandi rithöfundur í Danmörku.
Það bar margt nýtt fyrir augu Íslendinga þegar Danir komu hingað með fjölda tæknimanna, tóla og leikara, sem léku flest meginhlutverkin, en Muggur, Guðmundur Thorsteinsson fór þó með aðalhlutverkið. Fjöldi annarra Íslendinga kom við sögu, en myndin var tekin upp á Suður- og Suðvesturlandi og var engin smásmíði, rúmlega þriggja klukkustunda löng og var lengsta og dýrasta norræna kvikmyndin þegar hún var frumsýnd í Kaupmannahöfn 1920.
Kvikmyndasafn Íslands endurgerði stafræna útgáfu eftir bestu eintökum af myndinni sem fundust og það var vissulega gert í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá frumsýningunni. Þórður Magnússon tónskáld var fenginn til að semja nýja tónlist við myndina og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands var fengið það hlutverk að leika þessa mögnuðu tónlist hans á sviði á meðan myndin væri sýnd á tjaldi í Hofi á Akureyri. Þetta átti allt að gerast vorið 2021, en atvikin höguðu því svo að fresta þurfti uppfærslunni á frest ofan vegna plágunnar og lokana og fjöldakmarkana, og tíminn leið.
Hvað gerðu bændur þá? Eins og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, sagði: „Í versta Covid þegar ekkert mátti þá máttum við samt gera það sem við gerum best, að hljóðrita sinfóníska tónlist. Við breyttum því tónleikunum í stærsta upptökuverkefni okkar til þess tíma og allir gátu unnið þrátt fyrir lokun.“
Niðurstaðan var því sú að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands tók upp þriggja tíma langt tónverk Þórðar Magnússonar undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar og Grammyverðlaunahafinn Steve McLaughlin hljóðblandaði tónlistina. Allt gerðist þetta í Hofi, sem er sannarlega vagga kvikmyndatónlistar á Íslandi. Myndin er mögnuð ein og sér en þeir sem heyrt hafa ljúka upp einum munni um að tónsmíðar Þórðar Magnússonar séu stórvirki. Það verður því spennandi að fá að sjá og heyra.
Saga Borgarættarinnar er samstarf Kvikmyndasafns Íslands, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri.