Menning
Sönghópurinn Rok og vorblær í Glerárkirkju
23.04.2024 kl. 08:00
Sönghópurinn Rok ætlar að fagna sumri með Vorblæ í Glerárkirkju næsta föstudag, 26. apríl.
„Á efnisskránni verða þekktir rokkslagarar í huggulegum útsetningum ásamt sígildum og nýjum íslenskum dægurlögum,“ segir í tilkynningu.
Sönghópurinn var stofnaður árið 2020 af hópi fólks með reynslu úr ýmsum áttum. „Hópurinn státar af 11 söngvurum með það sameiginlegt að elska að syngja. Þetta er í annað sinn sem Rok heldur sína eigin tónleika en hópurinn setti rafmagnaða rokktónleika upp í Hofi í fyrravor við frábærar undirtektir. Stjórnandi hópsins er Jónína Björt Gunnarsdóttir og tekur hún líka þátt í söngnum, ásamt því að þjálfa og útsetja.“
Meðal verkefna sem hópurinn hefur tekið þátt í er tónleikauppfærsla af Hárinu árið 2022 og jólatónleikunum Jólaljós og lopasokkar en báða viðburði framleiddi Rún Viðburðir. Einnig hefur hópurinn tekið þátt í jólatónleikunum Norðurljós ásamt öðrum verkefnum.
„Hópurinn mun hafa með sér úrvals hljóðfæraleikara til að skapa sem bestu stemmninguna. Það mun enginn verða svikinn af þessu,“ segir jafnframt í tilkynningu.
Miðaverð er 4000 krónur. Hægt er að nálgast miða á samfélagsmiðlum Rok, í gegnum netfangið songhopurinnrok@gmail.com og við innganginn á tónleikana. Tekið er fram að ekki verði posi á staðnum.