Fara í efni
Menning

Skurkarar fagna fjörutíu ára tilvist

Skurk í dag: Kristján B. Heiðarsson, Guðni Konráðsson, Hörður Halldórsson og Jón Heiðar Rúnarsson.

Þungarokkssveitin Skurk spilar á tónleikum á Verkstæðinu á Akureyri laugardagskvöldið 2. nóvember. Tilefnið er 40 ára afmæli sveitarinnar og útgáfa á nýju efni og gömlu. Skurk fjórir núll er yfirskrift tónleikanna sem hefjast kl. 21 (miðasala hér). Ásamt Skurki koma Drápa, Supposed Purpose og Sót einnig fram á tónleikunum. Akureyri.net krukkaði aðeins í sögu Skurks. Örútgáfu af sögu sveitarinnar má meðal annars finna í yfirferð Glatkistunnar frá 2022.

Allt á fullu að undanförnu

Þann 1. október kom út á Bandcamp LP platan Divided by Generations með efni sem samið var á árunum 1984-1989 og efni annarra sem sveitin spilaði 1984-1991. Tveim dögum síðar kom einnig út á Bandcamp efni af geisladisknum They're here með efni sem tekið var upp í eigin hljóðveri sveitarinnar 1991. Lagið Satanic Power, sem tekið var upp fyrir nokkrum árum í tilefni af fimmtugsafmæli tveggja meðlima, kom út á Spotify og öðrum streymisveitum 5. október og þann 7. október kom smáskífa með þremur lögum, titillaginu Satanic Power og lögunum No Crime og Riff út á Bandcamp. Lögin voru öll samin í árdaga Skurks, en tekin upp 2019 af núverandi hljómsveit.

Blóðbragð inniheldur efni sem samið var og tekið upp fyrir um tíu árum þegar einn hljómsveitarmeðlima slasaðist á fæti og átti erfitt með að standa á sviði og spila á tónleikum. Þá lögðust menn í upptökur í staðinn.


Plötur sveitarinnar á Bandcamp. Smellið á myndina til að heimsækja síðu Skurks á Bandcamp.

Fjörutíu ár, en þó ekki samfleytt

Þó stórræði Skurks þessa dagana séu í tilefni af 40 ára afmæli sveitarinnar hefur hún ekki starfað samfleytt í 40 ár heldur eru 40 ár frá fyrstu æfingunni og má segja að virknitímabilin séu í meginatriðum tvö, frá 1988 til 1993 og aftur frá 2011 til dagsins í dag. Fyrstu árin eftir stofnun sveitarinnar 1984 fóru að mestu í æfingar og að semja efni.

Saga sveitarinnar er þannig dálítið kaflaskipt og reyndar ekki fullkomlega á hreinu hverjir skipuðu hana fyrstu misserin. Þó er á hreinu að sögn Harðar Halldórssonar gítarleikara að sveitin var stofnuð og hóf æfingar 1984 í skúr heima hjá ömmu Lalla (Hjörleifs Árnasonar trymbils) í Grænumýrinni, skúr sem ku enn vera á sínum stað og Hörður segir að rúmi varla einar hjólbörur. Stofnendur voru Hjörleifur, Hrafn Stefánsson og Ólafur Hrafn Ólafsson.

Orðabókin ákvað nafnið

Nafn sveitarinnar, Skurk, var að sögn Harðar fengið með hinni gamaldags aðferð að taka upp orðabók, fletta blindandi og benda á orð og það voru örlögin sem gáfu okkur þetta nafn. Örlögin hafa ef til vill ekki valið nafnið alveg út í bláinn því hvorugkynsnafnorðið skurk merkir þungt hljóð sem heyrist til dæmis þegar hlutum er ýtt til, eða eitthvað í þá áttina. Skurk er hávaði, hark, skark, samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs.

Strákarnir æfðu hér og þar, spiluðu eitthvað og sömdu tónlist. Söngvarar í upphafi voru Valdimar Tryggvason og Friðrik Tryggvi Friðriksson (Diddi), og eiga þeir þátt í smíði laga sem enn eru á lagalista hljómsveitarinnar. Skilgreining á sveitinni eða tónlistarstefnunni er ef til vill ekki á hreinu fyrstu árin, en hún tók á sig alvöru þungarokksmynd upp úr 1988. Á þeim tíma komu Guðni Konráðsson og Páll Steindór Steindórsson inn í verkefnið og Hörður skömmu síðar, eða um 1989-1990.

Mjög virk í upphafi tíunda áratugarins

Sveitin hélt sig að mestu við Norðurlandið þegar hún var virkust á árunum 1990-1993, en spilaði þó á óháðu listahátíðinni Ólétt í Reykjavík sumarið 1993. Skömmu síðar lognaðist hún út af og rokkbylgjan var sömuleiðis að hjaðna.

Þessar myndir eru teknar í Sjallanum á Hringleikahúsinu, sem var eins konar ferðahátíð haustið 1990. Myndband úr Sjallanum má finna neðst í greininni.

Skurk spilaði mikið af frumsömdu efni á tónleikum á þessu fyrra tímabili í sögu hennar, en gaf þó ekki út neitt af því efni.
Þeir áttu þó sitt eigið stúdíó og tóku upp flest lög sveitarinnar sjálfir sem eru nú loksins orðin aðgengileg á Bandcamp sem hluti af 40 ára afmælisútgáfu sveitarinnar.

Eitthvað er þó til í myndbandaformi á YouTube frá þessum árum (sjá neðst í greininni) og þar er einnig að finna þeirra útgáfu með eigin texta við jólalagið Snow is falling (Snjókorn falla). Í þeirra útgáfu heitir lagið Víxlar falla.

Á árunum 1990 til 1993 var sveitin mjög virk í tónleikasenunni, en upp úr því skildu leiðir. Menn fóru þó ekki langt í sundur að sögn Harðar, meðlimirnir unnu saman tónlist næstu tíu árin, en sumir hurfu svo alveg úr hópnum. Hörður og Guðni færðu sig yfir í rokkið í nokkur ár fram að aldamótum, spiluðu meðal annars í böndum eins og Hey Joe, Fire og Ben Dover, gáfu út slatta af efni á þessum tíma og fengu nokkra útvarpsspilun.

Kristján, Jón Heiðar, Guðni og Hörður. Ljósmynd: Linda Ólafsdóttir.

Flestum gleymd – endurfundir 2011

Hörður flutti síðan suður, en þegar hann kom aftur heim 2011 þekkti hann engan á Akureyri nema Skurkarana, eins hann orðar það, og segir því eðlilegt að menn hafi hist nokkrum sinnum og tekið nokkur Skurklög.

Sveitin var flestum gleymd, eins og það er orðað í Glatkistunni, þar til þeir félagar byrjuðu aftur eftir langt hlé og komu fram opinberlega í fyrsta skipti í 19 ár vorið 2012. Það var á Sportvitanum á Akureyri og tróðu þeir upp ásamt hljómsveitunum Dánarbeði og Skálmöld, en sú síðarnefnda var þá farin að vekja nokkra athygli. Skurk skipuðu á þessum tíma þeir Guðni Konráðsson á gítar sem einnig hafði tekið við söngnum af Páli Steindóri, Þorvaldur Ingvi Schiöth trymbill, Hörður Halldórsson á gítar og Jón Heiðar Rúnarsson á bassa. Þorvaldur hætti í sveitinni 2012 og tók Kristján B. Heiðarsson sæti hans haustið 2012.

Final Gift tileinkuð minningu söngvarans

„Það gekk mjög vel og fljótlega vorum við farnir að spila á tónleikum hér og fyrir sunnan. Í framhaldi ákváðum við að gefa út Best of plötu og völdum nokkur uppáhaldslög Skurks 1984-1993, gáfum út plötuna Final Gift.“ Platan var tileinkuð minningu Páls Steindórs Steindórssonar, fyrri söngvara sveitarinnar, sem lést í flugslysi í ágúst 2013. Mögulega átti fráfall hans einmitt sinn þátt í að sveitin hljóðritaði þessa sex laga plötu með eldra efni sveitarinnar sem eins konar uppgjör við fyrra starfstímabilið, frá 1988-93.

Skurk. Kristján B. Heiðarsson trymbill, Hörður Halldórsson gítarleikari, Guðni Konráðsson gítarleikari og söngvari, og Jón Heiðar Rúnarsson bassaleikari. 

Í Glatkistunni er þessum árum lýst svo: „Þar með var tónninn sleginn og sveitin fór á fullt skrið í spilamennsku á nýjan leik, þungt rokk var nú aftur orðið inn, einkum meðal miðaldra karlmanna og sveitir eins og Dimma, Sólstafir og Skálmöld nutu jafnvel almennra vinsælda. Stærri tónleikavettvangur beið sveitarinnar en áður, afmælistónleikar í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar og málmrokkshátíðin Fjandinn – Kice voru meðal tónleika sem sveitin kom fram á, nýtt efni var þá á dagskrá sveitarinnar.“

Á þessum tíma voru meðlimir þeir sömu og eru að spila saman í dag:

  • Kristján B. Heiðarsson á trommur
  • Jón Heiðar Rúnarsson á bassa
  • Guðni Konráðsson söngur og gítar
  • Hörður Halldórsson á gítar

Fótbrot setti strik í reikninginn

Fljótlega eftir útgáfu Final Gift slasaðist Guðni gítarleikari á fæti og átti í nokkurn tíma erfitt með að standa í fótinn eða spila á sviði „þannig að við tókum þá ákvörðun að hendast í að semja plötu og taka upp frekar en að leggjast í kör,“ segir Hörður. Það var upphaf verkefnis sem hlaut nafnið Blóðbragð og fór af stað einhvern tíma á árunum 2014-2015 og var ærið og mikið, að sögn Harðar.

Skurkarar leituðu til Hauks Pálmasonar og Daníels Þorsteinssonar um aðstoð við að gera stóra epíska plötu í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri og ýmsa tónlistarmenn sem hjálpuðu þeim við að búa til sögu í hljóði, eins og Hörður orðar það.

Þeir koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Guðni, Kristján, Jón Heiðar og Hörður. Ljósmynd: Linda Ólafsdóttir.

Hörður segir að þeim teljist til að platan hafi verið tekin upp í sex hljóðverum og um 35 manns, tónlistarfólk, nemendur og fagfólk úr nemendahópi klassísku deildar og söngdeildar Tónlistarskólans á Akureyri, tónlistarfólk úr Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og fleiri. Má þar meðal annars nefna Björgvin Sigurðsson (Böbba í Skálmöld), Þórhildi Örvarsdóttur, Kristel Nótt Steinarsdóttur og Einar Inga Hermannsson.

Platan var fjármögnuð með forsölu á Karolina Fund og náðu þeir að komast vel yfir sett mark í söfnuninni. Platan kom út í mars 2017.

Skurk á Eistnaflugi 2017. Hörður, Guðni, Jón Heiðar og Kristján. Ljósmynd: Linda Ólafsdóttir.

Skurk spilaði eitthvað á hátíðum og hélt útgáfutónleika, en svo komu inn önnur verkefni hjá meðlimunum, til dæmis Punks of the Empire (sem Akureyri.net fjallaði um nýlega), Vetur og Changer, hin böndin sem Hörður og Kristján hafa verið og eru í.

Skurk tók því smá pásu, en var svo bókuð á Norðurhjararokk á þessu ári sem átti að fara fram á Akureyri og í Reykjavík. Tónleikunum á Akureyri var aflýst vegna veðurs, en bandið gerði feykigóða ferð til Reykjavíkur í vor og „spilaði mjög gott gigg og þá varð ekki aftur snúið,“ eins og Hörður orðar það.

Og nú hafa strákarnir verið á fullu við að koma út gömlu og nýju efni og ætla að fagna fertugsafmælinu með tónleikunum á Verkstæðinu á laugardagskvöldið.

- - -
 
Á Facebook-síðu sveitarinnar fyrir skemmstu kom fram að í tilefni af 40 ára afmælinu hafi sveitin efnt til „fjölþættrar og afar sérstakrar útgáfu á hljóði og mynd í samstarfi við Inconsistency Records.“
 
Akureyri.net tekur sér það bessaleyfi að birta þessa yfirferð til fróðleiks og upplýsingar fyrir lesendur, og tengir við YouTube-myndbönd sem nefnd eru í yfirferðinni.


1. október: Divided by Generations (LP) - kemur út á Bandcamp
Þarna má finna fyrstu upptökur Skurks og fyrstu lögin sem bandið samdi á árunum 1984-1989 sem og ýmsar ábreiður sem hljómsveitin reyndi við á ýmsum stigum ferilsins frá 1984-1991.

2. október: Skurk - Dynheimarokk festival 10. nóv. 1990 - kemur út á YouTube
Líklega fyrstu almennilegu tónleikar hljómsveitarinnar en þarna hafði bandið þróast svolítið frá stofnun og rokkið var farið að taka völdin. Á þessum tónleikum fékk Skurk að láni frá dauðarokkshljómsveitinni Baphomet þá Agnar Daníelsson bassaleikara og Viðar Sigmundsson gítarleikara.

3. október: They’re Here (LP) - kemur út á Bandcamp
Skurk eignaðist sitt eigið átta rása hljóðver árið 1991 og hóf það mikla verk að taka upp öll lögin sín. Útkoman var geisladiskur sem hljómsveitin gaf út í afar takmörkuðu upplagi norðan heiða. Tíu lög með einu bónuslagi frá gamla skólanum. Þarna má meðal annars heyra upprunalegar útgáfur af lögum sem svo komu út í nýjum útgáfum frá bandinu seinna meir.

4. október: Skurk - Sjallinn Hringleikahús 28. des. 1990 - kemur út á YouTube
Hringleikahúsið var einhvers konar ferðahátíð haustið 1990. Hátíðin fór síðan í Sjallann á Akureyri og voru tónleikarnir teknir upp á vídeó. Myndefni Skurks hefur varðveist og verður nú loksins aðgengilegt almenningi á YouTube.

5. október: Satanic Power (single) - kemur út á Spotify og öðrum streymisveitum
Eitt af fyrstu lögum Skurks sem bar nafn með rentu. Skurk nútímans tók lagið upp í tilefni af fimmtugsafmæli tveggja stofnmeðlima Skurks fyrir nokkrum árum síðan, og nú er loksins tækifæri til að leyfa almenningi að heyra hvernig Skurk hljómaði í huga unglinganna sem störtuðu þessu öllu. Þess má geta að einu upprunalegu upptökurnar af þessu lagi er að finna á tónleikamyndböndunum Dynheimarokk og Hringleikahúsið, en hljómsveitin steingleymdi að taka þetta lag upp þegar hún fór í hljóðver fyrir 30 árum síðan.

6. október: Skurk - Live @ Norðurhjararokk 1991 - kemur út á YouTube
Norðurhjararokk var tónlistarhátíð þar sem að Skurk, Baphomet og Exit (síðar Tombstone) ferðuðust um Norðurland og spiluðu með þungarokksböndum sem voru kunnug staðháttum. Tónleikarnir í 1929 á Akureyri voru sérstakir þar sem Skurk tók þar þónokkra áhættu með því að leigja svona stóran tónleikastað. 1929 var álitinn einn allra flottasti tónleikastaðurinn á landinu en þangað fóru böndin til að smekkfylla veskið af seðlum og taka upp myndbönd, því þar var hljóð- og ljósakerfi upp á tíu og fagfólk í hverri stöðu. Skurk, Exit og Baphomet spiluðu þarna fyrir rúmlega 200 gesti en fátítt var á þessum tíma að þungarokk gæti dregið að viðlíka fjölda fólks.

7. október: Satanic Power (EP) - kemur út á Bandcamp
Satanic Power er útgáfa með þremur mjög svo gömlum lögum með Skurk. Lögin Satanic Power, No Crime og Riff eiga það öll sameiginlegt að vera partur af fyrstu bylgju Skurks og voru þau svo tekin upp í tilefni af fimmtugsafmæli tveggja stofnmeðlima Skurks fyrir nokkrum árum síðan. Loksins geta allir notið þeirra á Bandcamp streymisveitunni, en titillagið verður einnig í boði á öllum öðrum helstu streymisveitum.

Fjármálatexti við jólalag

YouTube geymir fleiri gersemar. Á meðal þess sem þar má finna er þungarokksútgáfa af lagi sem þekktara er sem jólalag, en í stað þess að snjókorn falli eru það víxlar sem falla.

  • Flytjandi: Skurk
  • Lag: Snow is falling (Snjókorn falla)
  • Frumsamdur texti: Víxlar falla