Fara í efni
Menning

Skúli heiðursgestur KA á bikarúrslitaleiknum

Skúli Ágústsson á skrifstofu Hölds upp úr 1990. Mynd af heimasíðu KA.

Skúli Gunnar Ágústsson verður heiðursgestur KA á bikarúrslitaleiknum í knattspyrnu gegn Víkingi á Laugardalsvelli næstkomandi laugardag. Þetta kemur fram á heimasíðu KA, þar sem er skemmtileg grein um Skúla og hans glæsilega íþróttaferil.

Í greininni segir meðal annars:

Skúli fæddist 1943 á Þórshöfn á Langanesi en fluttist ungur að árum með fjölskyldu sinni til Akureyrar og hefur búið hér allar götur síðan. Hann ólst upp í Innbænum og á Eyrinni. Í Innbænum keppti Skúli fyrir KA á skíðum. Á Eyrinni var á þessum árum höfuðvígi Þórsara og þar snerist allt um knattspyrnu. Skúli fór að spila fótbolta með félögum sínum þar, sem flestir voru í Þór, en hann hélt tryggð við KA og spilaði fótbolta undir merkjum KA og síðar einnig ÍBA.

Skúli lék fyrst með meistaraflokki Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA), sameiginlegs liðs KA og Þórs, sextán ára gamall árið 1959.

Snemma komu í ljós afburða hæfileikar Skúla á knattspyrnuvellinum. Hann spilaði stöðu afturliggjandi framherja, hafði einstaka yfirsýn á vellinum, var útsjónarsamur og teknískur og betri en margur annar að sjá glufur í vörnum andstæðinganna. Ófá glæsileg mörkin skoraði hann á ferlinum.

Meistaraflokkur KA í knattspyrnu árið 1963. Standandi frá vinstri: Jakob Jakobsson, Sveinn Kristdórsson, Jón Stefánsson, Birgir Hermannsson, Þormóður Einarsson og Frímann Frímannsson. Krjúpandi frá vinstri: Kári Árnason, Haukur Jakobsson, Einar Helgason, Skúli Ágústsson og Árni Sigurbjörnsson. Mynd: Minjasafnið á Akureyri. 

Í greininni á vef KA er rifjað upp á Skúli lék nokkra A-landsleiki og kom einnig við sögu í B-landsliði Íslands.

Ásamt nokkrum öðrum leikmönnum úr ÍBA-liðinu var Skúli ítrekað í pressuliðinu svokallaða sem Samtök íþróttafréttamanna völdu til þess að spila æfingaleiki við landsliðið. Í fyrsta skipti var Skúli valinn í A-landslið Íslands í leik gegn Norðmönnum árið 1962. Hann átti síðan eftir að vera í A-landsliðinu í þremur leikjum gegn Írum árið 1962 og 1965, sumarið 1964 í þremur vináttuleikjum gegn Skotum, Bermúdamönnum og Finnum, gegn Dönum árið 1970 og síðasti A-landsleikurinn var gegn Frökkum í París 1971. Einnig spilaði Skúli B-landsleiki við Færeyinga 1962 og 1964.

Skúli var einn máttarstólpa ÍBA-liðsins sem varð bikarmeistari í knattspyrnu árið 1969 sem er eina skiptið sem lið frá Akureyri hefur náð þeim árangri. En íþróttaferillinn einskorðaðist ekki bara við knattspyrnu; Skúli var í fremstu röð skautahlaupara á Íslandi, var mjög góður íshokkímaður og eftir að hann sneri sér að golfi um miðjan aldur náði hann einnig afar góðum árangri á þeim vettvangi – varð m.a. Íslandsmeistari öldunga og lék með öldungalandsliði Íslands.

Skúli var þekktur í íslensku viðskiptalífi sem einn Kennedy bræðranna sem svo voru kallaðir; þeir bræður, hann, Birgir og Vilhelm stofnuðu árið 1974 fyrirtækið Höld sem rak m.a. Bílaleigu Akureyrar, sem var og er stærsta bílaleiga landsins.

Smellið hér til að sjá greinina alla á heimasíðu KA.