Skugga Sveinn Gnarr mættur til leiks
Leikfélag Akureyrar frumsýnir í kvöld leikritið Skugga Svein eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson. „Skugga Sveinn, hér í nýrri og ferskri útgáfu, er bráðskemmtilegt verk um einn þekktasta útlaga Íslands og baráttu hans við laganna verði,“ segir á vef Menningarfélags Akureyrar.
Skugga Sveinn var fyrsta leikrit Matthíasar. Um tilurð þess sagði hann: „Ég bjó til eða sullaði eða skrúfaði saman leikrit í jólafríinu [í Læra skólanum í Reykjavík 1861]. Það heitir Útilegumennirnir og er í fjórum þáttum með ljóðmælarusli, hér og þar. Mér leiddist þessi danska „kommidia“ sem griðkonur hérna segja, og tók mig því til, og þó þetta rit mitt í raun og veru sé ómerkilegt, gjörði það þó hvínandi lukku; ég var æptur fram á scenuna, og klappaði pöbullinn yfir mér, svo ég varð áttavilltur.“
Verkið var frumsýnt í febrúar 1862 þegar skólapiltar settu það á svið og móttökur voru ekki af verri endanum, eins og höfundurinn lýsir.
Þjófur og morðingi
Lárensíus sýslumaður á þann draum heitastan að klófesta útilegumanninn Skugga Svein og lið hans enda Skugga Sveinn stórglæpamaður, þjófur og morðingi. En heldur vandast málið þegar dóttir Lárensíusar verður ástfangin af einum útilegumannanna og gerir hvað hún getur til að frelsa hann frá fangelsun og dauða. Hefst þá spennandi atburðarrás og barátta á milli ástar og haturs, réttlætis og ranglætis.
Jón Gnarr leikur Skugga Svein í uppsetningu Leikfélags Akureyrar – hann sagðist raunar í viðtali í vikunni ekki vilja leika hlutverkið heldur vera Skugga Sveinn. Björgvin Franz Gíslason fer með hlutverk Lárensíusar sýslumanns, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir leikur Ástu, Sunna Borg er Grasa Gudda, María Pálsdóttir leikur Ögmund, Árni Beinteinn leikur Harald, Vilhjálmur B. Bragason fer með hlutverk Ketils skræks og Vala Fannell er Gvendur smali. Marta Nordal, leikhússtjóri LA, leikstýrir verkinu.
- Leikgerð: Marta Nordal og leikhópurinn
- Leikmynd: Andrúm arkitektar
- Búningar: Björg Marta Gunnarsdóttir
- Tónsmíði og tónlistarútsetningar: Sævar Helgi Jóhannsson
- Söngtextar: Matthías Jochumsson og Vilhjálmur B. Bragason
- Ljósahönnuður: Ólafur Ágúst Stefánsson
- Sýningarstjóri: Þórunn Geirsdóttir
- Hljóðhönnuður: Gunnar Sigurbjörnsson
- Hár og gervi: Harpa Birgisdóttir
Smellið hér til að sjá leikskrá Skugga Sveins á vef Menningarfélags Akureyrar.