Skugga Sveini var fagnað vel og lengi
Vel var fagnað og lengi í gamla Samkomuhúsinu í kvöld eftir frumsýningu Leikfélags Akureyrar á Skugga Sveini. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var á meðal gesta og kvaðst hafa skemmt sér afar vel. Hann heilsaði upp á leikarana baksviðs að sýningu lokinni.
Þetta fyrsta leikrit séra Matthíasar Jochumssonar, sem hann „bjó til eða sullaði eða skrúfaði saman“ í jólafríi í Lærða skólanum 1861 var frumsýnt í febrúar árið eftir. Þótt það sé í raun og veru „ómerkilegt, gjörði það þó hvínandi lukku; ég var æptur fram á scenuna, og klappaði pöbullinn yfir mér, svo ég varð áttavilltur,“ sagði hann um frumsýningarkvöldið.
Viðtökur voru einnig firnagóðar í kvöld og pöbullinn klappaði vel fyrir leikhópnum og listrænum stjórnendum. Leikstjórinn, Marta Nordal, og leikhópurinn eru skrifuð fyrir leikgerðinni sem er eðlilega frábrugðin þeirri sem skólapiltar í Lærða skólanum buðu upp á fyrir liðlega hálfri annarri öld; kúrakeþema og dálítið rokk í bland við ástarsögu, yfirvald og misvitra útilegumenn, féll í góðan jarðveg.
Leikararnir taka kampakátir á móti dúndrandi lófaklappi áhorfenda.
Listrænum stjórnendum klappað lof í lófa.