Fara í efni
Menning

Sköpun bernskunnar og Innan rammans

Hlaðgerður Íris Björnsdóttir, Stúlkan í fjörunni, 2014.

Tvær sýningar verða opnaðar í Listasafninu á morgun, laugardaginn 25. febrúar kl. 15; Sköpun bernskunnar 2023 og Innan rammans.

Þetta er tíunda sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. „Hún er sett upp sem hluti af safnfræðslu, með það markmið að gera sýnilegt og örva, skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn. Þátttakendur vinna verk sem falla að þema sýningarinnar, sem að þessu sinni er manneskjan öll,“ segir í tilkynningu frá safninu.

Myndlistarmennirnir sem boðin var þátttaka í ár eru Úlfur Logason og Hlaðgerður Íris Björnsdóttir. Skólarnir sem taka þátt að þessu sinni eru leikskólinn Klappir og grunnskólarnir Lundarskóli, Brekkuskóli og Síðuskóli, sem og Minjasafnið á Akureyri / Leikfangahúsið.

Leikskólabörnin komu í Listasafnið í nóvember síðastliðnum og unnu sín verk undir stjórn Úlfs Logasonar og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur, fræðslufulltrúa og sýningarstjóra. Myndmenntakennarar grunnskólanna sem taka þátt stýra vinnu sinna nemenda, sem unnin er sérstaklega fyrir sýninguna.

Sköpun bernskunnar hlaut öndvegisstyrk Safnaráðs 2020 til þriggja ára. Af því tilefni verður gefin út vegleg bók 2024, þar sem farið verður yfir verkefnið og sýningarnar.

Sýningarstjóri: Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

Úlfar Logason, án titils, 2022

Innan rammans

Um sýninguna Innan rammans segir í tilkynningunni: „Í fræðslu um myndlist er lítið fjallað um það sem gerist þegar listamaður afhendir nýjum eiganda fullunnið listaverk. Þegar um málverk er að ræða stendur valið um innrömmun eða engan ramma. Við innrömmun hefur tíðarandinn og ólíkur smekkur fólks mikil áhrif. Rammar eru fjölbreyttir og þeir dýrustu eru gjarnan útskornir, skreyttir, jafnvel gullmálaðir og gefa til kynna virðingu, munað og verðmæti. Áður fyrr var það einkum auðugt fólk í valdastöðum sem átti slík verk og oftar en ekki voru forstjórar málaðir eins og kóngafólk fyrri alda og verkinu komið fyrir í viðamiklum gullramma.“

Á sýningunni má finna valin verk úr safneign Listasafnsins á Akureyri, sem öll eiga það sameiginlegt að vera í gullramma. „Það er áhorfandans að meta gildi rammanna og sýningin á að fá áhorfandann til að ígrunda listina og hvers konar umgjörð henti hverju verki. Hvaða tilfinningar kalla gullrammarnir fram? Hvernig væru verkin í annars konar römmum eða hreinlega án ramma?“

Sýningarstjórar: Guðrún Pálína Guðmundsdóttir og Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.