Fara í efni
Menning

Skapandi listafólk er ónýttur fjársjóður

Gjörningalistakonan Anna Richardsdóttir vill að betur verði stutt við skapandi grasrótarfólk á Akureyri. Segir hún að í skapandi listafólki liggi ónýttur fjársjóður sem væri hægt að nýta svo miklu betur.

Ef fjárfest yrði í listafólki á Akureyri yrði bæjarlífið bæði litríkara og skemmtilegra. Þetta segir listakonan Anna Richardsdóttir sem viðrað hefur þá hugmynd að 85 milljónir renni til listafólks í bænum árlega næstu fimm árin. Síðan væri hægt að meta áhrif þess á bæjarfélagið.

Anna, sem nýlega hóf að taka ellilífeyri, hefur nú loksins tækifæri til að sinna list sinni af fullum krafti eins og hún sagði lesendum Akureyri.net frá í gær – enda kallar hún ellilífeyrinn listamannalaun! 


„Ég er talskona þess að við finnum upp á einhverju sem er sérstakt og einstakt fyrir svæðið okkar en það þarf hönnun, tíma og peninga í að hugsa slíkt. Og ég veit að ef stutt yrði veglega við skapandi grasrótar listafólk, þá mun fjármagnið streyma til baka,“ segir Anna sem sjálf blandar gjarnan saman gjörningalist, dansi, tónlist og myndlist í listsköpun sinni. 

Listafólk, laun og styrkumsóknir

Þó frelsi frá vinnumarkaðinum gefi Önnu ný tækifæri til listsköpunar hefur hún verið að beina kröftum sínum annað að undanförnu. „Ég er að reyna að finna leið svo listafólk fái peninga fyrir vinnuna sína. Ef þú ert t.d hjúkrunarfræðingur eða í lögregunni þá eyðir þú mörgum árum í að læra þitt fag. Svo ferðu að vinna við fagið og færð laun fyrir það sem þú kannt og getur. Ef þú ert listamaður ferðu jafnvel til Reykjavíkur eða útlanda til að mennta þig, kemur svo til baka og ferð að vinna á veitingahúsi eða kenna íslensku sem annað mál, til þess að fjármagna það að þú getir verið að vinna í skapandi í listum. Þetta er alveg glórulaust í mínum huga. Í skapandi listafólki liggur ónýttur fjársjóður sem væri hægt að nýta svo miklu miklu betur,“ segir Anna.

Hún heldur áfram: „Fólk sem vinnur í skapandi grasrótarlistum, vinnur oft meira en það fær greitt fyrir. Það er svo athyglisvert að í kringum listsýningar fær listafólkið sjálft ekki alltaf laun, sem er mjög óréttlátt. Þessu virðist erfitt að breyta en það er ekki hægt að leyfa þessu að vera svona áfram. Ég vil að það sé einhver suðupottur sem er fullur af peningum sem listafólk getur stungið sér í, án þess að þurfa að sitja sveitt yfir styrkumsóknum því umsóknagerð er allt annar handleggur en skapandi listir og fer oft ekki saman í einni manneskju. Ímyndaðu þér hvað listafólk gæti gert, hefði það úr meiri peningum að moða? Ef skapandi listafólk hér í bænum, sem sannarlega er að vinna að list, fengi alvöru laun fyrir vinnuna sína án þess að þurfa að eyða endalausum tíma í styrkumsóknir þá yrði eitthvað virkilega stórkostlegt til.“

Fólk sem vinnur í skapandi grasrótarlistum, vinnur oft meira en það fær greitt fyrir. Það er svo athyglisvert að í kringum listsýningar fær listafólkið sjálft ekki alltaf laun, sem er mjög óréttlátt. Þessu virðist erfitt að breyta en það er ekki hægt að leyfa þessu að vera svona áfram. Ég vil að það sé einhver suðupottur sem er fullur af peningum sem listafólk getur stungið sér í, án þess að þurfa að sitja sveitt yfir styrkumsóknum því umsóknagerð er allt annar handleggur en skapandi listir og fer oft ekki saman í einni manneskju.

Meira fjármagn beint til listafólks

Í þessu sambandi segist Anna bæði búin að fara á fund með KEA og Akureyrarbæ til að kanna hvort ekki sé hægt með einhverjum ráðum að setja meiri peninga til listafólks á Akureyri. Segist hún hafa lagt upp með þá hugmynd að 85 milljónir yrðu settar til starfandi listafólks í bæjarfélaginu á ári í fimm ár. Ég vil að peningar renni bent til listafólks sem hefur verið að vinna að skapandi listum í grasrótinni undanfarin ár og sýnt fram á með verkefnum sínum að það er vinnandi listafólk. Eins og t.d. listafólkið í Kaktust, Rösk og í Einkasafninu inn í Eyjafirði, sem og fólkið sem vinnur að hátíðunum eins og vídeólistahátíðinni Heim , Boreal Screendance Festival og Mannfólkið breytist í slím, svo einhver örfá dæmi séu tekin af hinu fjölmarga sem er í gangi á Akureyri. Ég er fyrst og fremst að hugsa um Akureyri, hvernig bærinn getur orðið meira spennandi og líflegri, að fólki finnist meira gaman að búa hérna og það verði eitthvað til sem fólk verði stolt af. Bærinn er alveg líflegur fyrir en ég sé fyrir mér að við getum farið með hann á alveg nýtt plan ef listin fær þann stuðning sem hún á skilið.

Dagana 10.-12. október 2024 var A! Gjörningaháíð! haldin á Akureyri. Þetta var í 10. sinn sem hátíðin var haldin en hún sú eina sinnar tegundar á Íslandi þar sem einungis er um gjörningalist að ræða úr öllum listgreinum. Mynd: Daníel Snorrason. 

Ég er fyrst og fremst að hugsa um Akureyri, hvernig bærinn getur orðið meira spennandi og líflegri, að fólki finnist meira gaman að búa hérna og það verði eitthvað til sem fólk verði stolt af. Bærinn er alveg líflegur fyrir en ég sé fyrir mér að við getum farið með hann á alveg nýtt plan ef listin fær þann stuðning sem hún á skilið.

Vel stutt við íþróttir, minna fer til lista

Anna segist hafa lagt til við KEA að félagið endurskoði hversu stórt hlutfall fari í styrki til lista úr Menningar- og viðurkenningarsjóði þess. Í fyrra hafi tæplega 24,7 milljónum króna verið úthlutað úr sjóðnum til 60 aðila. Þar af fóru 4,2 milljónir til menningar- og samfélagsverkefna, 17 milljónir í íþróttastyrki og 3,4 milljónir til ungra afreksmanna sem öll stunda íþróttir. „Ég lagði til við KEA að það yrði stofnaður sérstakur menningarsjóður sem styrkti bara listafólk, en þau tóku ekki vel í það. Þeim fannst ekki heldur að fjárfestingasjóður eins og KEA gæti fjárfest í listafólki af því að þau fjárfesta í einhverju sem gefur peninga til baka. Það er að mínum mati gamaldags hugsun sem horfir til styttri tíma en ekki fram á við. Að fjárfesta í fólki er það eina sem gefur alvöru arð og klikkar ekki,“ segir Anna.

En þó hvorki KEA né Akureyrarbær hafi stokkið beint á hugmynd Önnu um aukinn stuðning við listafólk á Akureyri, í því formi sem hún stakk upp á, þá segir Anna að góðar hugsanir séu eins og vatn, þær finni sér alltaf farveg. Ein af hugmyndunum sem kom út úr þessu ferli var sú hvort ekki væri hægt að fá fjármagn fyrir starfsmann á vegum Gilfélagsins sem aðstoðaði listafólk við styrkumsóknir. KEA lagði nýlega eina og hálfa milljón til Gilfélagsins í það verkefni (Menningar- og viðurkenningasjóður KEA 2024) og er það góð byrjun, að sögn Önnu. Þetta gæti haft mikla þýðingu fyrir starfandi listafólk í bænum því það að skrifa góðar styrkumsóknir og finna sjóði til að sækja fé í, sé bæði tímafrekt og krefjist ákveðinnar færni. Hún sér fyrir sér að þessi starfsmaður geti sótt peninga í evrópska sjóði.

Frá síðustu Boreal Screendance Festival sem er alþjóðleg dansvídeóhátíð sem haldin er á Akureyri. Fyrsta hátíðin fór fram í Mjólkurbúðinni í nóvember 2020, en nú teygir hátíðin anga sína um allt Listagilið. Mynd: Facebooksíðan borealakureyri

 Ímyndaðu þér hvað listafólk gæti gert, hefði það úr meiri peningum að moða? Ef skapandi listafólk hér í bænum, sem sannarlega er að vinna að list, fengi alvöru laun fyrir vinnuna sína án þess að þurfa að eyða endalausum tíma í styrkumsóknir þá yrði eitthvað virkilega stórkostlegt til.

Hver króna í menningu verður að þremur

Talið berst að nýrri skýrslu Menningar- og viðskiptaráðuneytisins um „Framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi“ en margt listafólk vitnaði í skýrsluna á samfélagsmiðlum fyrir kosningarnar. Samkvæmt þessari skýrslu þá verður hver króna sem sett er í menningu að þremur krónum úti í samfélaginu,segir Anna og heldur áfram; „Uppsprettan að menningunni er í fólkinu en það skilar sér til bæjarfélagsins. Ef hátíðir eins og Boreal, sem er alþjóðleg hátíð tileinkuð vídeódansi, og Mannfólkið breytist í slím sem er tónlistahátíð jaðarsenunnar, og allar þessar litlu hátíðir sem sprottnar eru upp úr grasrótinni, sem og stærri hátíðir eins og A! Gjörningahátíð sem Listasafnið og Leikfélag Akureyrar leggja lið, fengju góðan styrk, 5-10 milljónir á ári, þá myndi eitthvað stórt gerast. Því ef þú hlúir vel að góðum hlutum gerist meira og eitthvað stórkostlegt verður til. Peningarnir margfalda sig út í samfélaginu og þetta ber að skoða.“

Frá A!Gjörningahátíð 2024. Frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar. Hátíðin er sú eina á Íslandi sem einbeitir sér eingöngu að gjörningalist. Mynd: Daníel Snorrason 

Því er framtíðarsýn mín sú að Akureyrarbær setji meiri peninga í listir og styðji betur við það góða listastarf sem er hér nú þegar. Að listafólkið okkar sé til dæmis styrkt til þess að upphugsa eitthvað frumlegt og djúsí fyrir bæinn, til dæmis risa vængi sem ná á milli húsa og tákna örninn í norðrinu okkar, eitthvað stórt og stórkostlegt.

Lífshamingjan þarf að fá stærra vægi

Anna segist vera talskona þess að Akureyri verði enn betri staður til þess að búa á og í því sambandi sé ekki hægt að hafa listina sem afgangsstærð því hún spili svo stóran þátt í hamingju fólks. Ef við tölum um lífshamingju og lífsgæði þá koma listir alltaf svo sterkt inn. Ef það væri engin listsköpun, við kynnum ekki að syngja lag og hafa gaman, væri lífið skemmtilegt? Lífshamingjan þarf að fá stærra vægi í lífi okkar, segir Anna sem vill sjá Akureyri þróast í þá átt að íbúarnir séu hugsandi, hamingjusamt fólk. Það sé í raun það sem þetta snýst allt um.

Ég vil ekki einsleitt samfélag, ég vil fjölbreytt samfélag. Og ef fleiri eru sammála mér þá vinnum við bara að því. Því er framtíðarsýn mín sú að Akureyrarbær setji meiri peninga í listir og styðji betur við það góða listastarf sem er hér nú þegar. Að listafólkið okkar sé til dæmis styrkt til þess að upphugsa eitthvað frumlegt og djúsí fyrir bæinn, til dæmis risa vængi sem ná á milli húsa og tákna örninn í norðrinu okkar, eitthvað stórt og stórkostlegt. Ég er talskona þess að við finnum upp á einhverju sem er sérstakt og einstakt fyrir svæðið okkar en það þarf hönnun, tíma og peninga í að hugsa slíkt. Og ég veit að ef stutt yrði veglega við skapandi grasrótar listafólk, þá mun fjármagnið streyma til baka.