Fara í efni
Menning

SinfoniaNord: stærsta verkefnið til þessa

Stærsta verkefni SinfoniaNord/Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands við upptöku kvikmyndatónlistar fram að þessu hefst í Hofi á morgun, föstudag, og stendur í viku.

„Það eru þrír risar úr alþjóðlega afþreyingariðnaðinum sem nýta sér þessa einstöku þjónustu á Akureyri næstu daga,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar við Akureyri.net, en getur ekki greint frá því að svo stöddu um hverja er að ræða.

„Um 100 listamenn og tæknifólk mun koma að verkefnunum, allt frá kammerkórum, slagverkshópum, blásarasveit og 80 manna nútíma sinfóníuhljómsveit. Upptökurnar, sem standa í heila viku, munu velta á fjórða tug milljóna króna, mest í erlendum gjaldeyri. Miðað við annir Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands síðustu árin er ljóst að þessi nýja atvinnugrein á Íslandi hefur fest sig í sessi í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri,“ segir Þorvaldur Bjarni.