Fara í efni
Menning

Saknaðarilmur – Miklu meira en leiksýning

Unnur Ösp Stefánsdóttir er ótrúleg í sýningunni, segir Rakel. „Ég hef engin orð um það, hversu góð leikkona hún er, vegna þess að ég upplifði hana alls ekkert sem leikkonu, mundi það bara eftir sýninguna. Hún var bara Elísabet.“ Mynd: Þjóðleikhúsið

„Leikrit hefur aldrei haft jafn mikil áhrif á mig. Ég verð að hafa þennan pistil um verkið svolítið hráan, vegna þess að daginn eftir sýninguna er ég ennþá í hafi af tilfinningum og það er stórsjór.“

Þetta segir Rakel Hinriksdóttir, í pistli sem Akureyri.net birti í morgun, um leikritið Saknaðarilm sem hún sá í menningarhúsinu Hofi í gærkvöldi. Verkið var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á síðasta leikári og hlaut fern Grímuverðlaun, íslensku leiklistarverðlaunin, fyrir sýningu ársins, leikrit ársins, leikkonu ársins í aðalhlutverki og tónlist ársins.

Þrjár sýningar eru í boði í Hofi í þessari viku. Sú fyrsta var í gær,  önnur sýning er í kvöld og þriðja annað kvöld.

Leikritið er eftir Unni Ösp Stefánsdóttur, byggt á bókum Elísabetar Jökulsdóttur, rithöfundar og skálds, þar sem hún horfist í augu við erfiða æsku, föðurmissi, geðveikina, ástina og sturlað lífshlaup sitt, eins og segir í kynningu á verkinu.

Unnur Ösp fer með hlutverk Elísabetar. „Hún er ótrúleg. Ég hef engin orð um það, hversu góð leikkona hún er, vegna þess að ég upplifði hana alls ekkert sem leikkonu, mundi það bara eftir sýninguna. Hún var bara Elísabet. Konan á sviðinu. Alvöru manneskja sem reynir að segja sögu sína, með öll lóðin hangandi um hálsinn.“ 

Pistill Rakelar – Saknaðarilmur: Sært fólk særir annað fólk