Fara í efni
Menning

Saint Pete tók Spotify með trompi

Saint Pete á nýafstöðnum Sparitónleikum um verslunarmannahelgina Mynd: Hilmar Friðjónsson

Akureyringurinn Pétur Már Guðmundsson, betur þekktur sem rapparinn Saint Pete, á vinsælasta lag Íslands á Spotify. Lagið rauk strax inn á vinsældalistann en það er af fyrstu plötu tónlistarmannsins.

Saint Pete gaf út sína fyrstu plötu Græni pakkinn um helgina og var með útgáfutónleika á Prikinu af því tilefni. Á plötunni er Saint Pete í samstarfi við helstu nöfnin í rappheiminum á Íslandi: Herra Hnetusmjör, Úlf Úlf og Birki. Það er einmitt lagið Tala minni skít með Herra Hnetusmjöri og Saint Pete sem trónir nú efst á Top 50 Spotify á Íslandi. Plötuna má hlusta á heild sinni á Spotify.

Orðaleikur og hnyttnar línur

Platan er gefin út af Sticky, plötuútgáfu Priksins og framleidd af Þormóði Eiríkssyni og Hreini Orra Óðinssyni. Margir halda ekki vart vatni yfir þessarri frumraun Saint Pete, þar á meðal akureyrski tónlistarmaðurinn Halldór Kristinn Harðarson eða Dóri K. Hann skrifaði m.a. þetta á Facebook:

„Ég hef beðið lengi eftir þessu mómenti, þetta er tegund af rappi sem ég elska mest, gamli skólinn smitaður af þeim nýja í bland við rosalegan orðaleik og hnyttnar línur. Stærstu kanónur landsins eru á Saint Pete vagninum og það er ástæða fyrir því, the hype is real. Það má samt ekki gleyma Hrein Orra sem hefur þurft að þola nokkur ár af ofhugsun hjá Pete og 1000 stúdíó sessionum, maðurinn á tökkunum. Ég var alltaf að leita af týpu eins og hreinsa hér á AK þegar ég var að gera sem mest af tónlist, algjör gullmoli. Til að plata verði alvöru þá virðist Þormóður bara þurfa að snerta við lögunum og þá glóir gullið. Innilega til hamingju guys og til hamingju Akureyri! Ég fæ ekki oft FOMO, en ég fékk svoleiðis í gær þegar útgáfupartýið á prikinu átti sér stað. Takk líka prikið fyrir að halda utan um drenginn í borginni.“