Fara í efni
Menning

„Sagan er skrítin og skemmtileg, grimm og fyndin“ 

Auður, Baldur og Markús með Auði 2. Mynd: Auðunn Níelsson

„Það er gaman að leika Auði 2, en ég væri nú sennilega ekki gráðugt mannætublóm í alvörunni. Frekar eitthvað friðsælt stofublóm. Tengdamamma eða eitthvað,“ segir Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri Litlu hryllingsbúðarinnar, sem verður frumsýnd hjá Leikfélagi Akureyrar annað kvöld, föstudaginn 11. október. Hann er ekki bara í leikstjórnarhlutverkinu, heldur ljær hann mannætublóminu ógurlega, Auði 2, rödd sína í verkinu. 

 

Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri Litlu hryllingsbúðarinnar og leikhússtjóri LA. Mynd: aðsend.

Bergur er nýr leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, en upphaflega ætlaði hann sér bara að koma norður til þess að leikstýra Litlu hryllingsbúðinni, sem fráfarandi leikhússtjóri, Marta Nordal, valdi. Þegar hún svo sagði störfum sínum lausum, sótti hann um stöðu leikhússtjóra og fékk hana.

„Það gengur glimrandi vel,“ segir Bergur um sýninguna, þegar örfáir dagar eru í frumsýningu. „Það hefur verið rosalega gaman hjá okkur og það er valinn maður í hverju rúmi, eins og sagt er.“ Bergur segir að hann telji að þeim sé að takast að setja upp skemmtilega, flotta og faglega sýningu. 

Ný og fersk sviðsetning

„Þetta verk er ferlega skemmtilegt,“ segir Bergur. „Við erum að tala um söngleik með stuttum og grípandi lögum. Sagan er skrítin og skemmtileg, grimm og fyndin. Verkið á mjög vel við mig, og það tók mig bara hálfan dag að samþykkja að leikstýra þessu verki hjá LA.“ Bergur segir að haldið sé tryggð við söguna í uppsetningunni. „Ég myndi alveg segja að þetta sé ný og fersk sviðsetning á verkinu, en aðdáendur verksins munu alveg þekkja það.“

 

Birta Sólveig Söring og Kristinn Óli í hlutverkum sínum sem Auður og Baldur. Mynd: Auðunn Níelsson

Arnþór Þórsteinsson leikur blómasalann Markús. Í bakgrunni sést í leikkonurnar Jónínu Björt Gunnarsdóttur, Katrínu Mist Haraldsdóttur, Urði Bergsdóttur og Þóreyju Birgisdóttur​, en þær sjá um að halda uppi stuðinu í verkinu. Mynd: Auðunn Níelsson

Í upphafi verksins er ekki um neina hryllingsbúð að ræða, en það er lítil og krúttleg blómabúð sem birtist áhorfendum fyrst. Eftir ótrúlega röð atburða breytist hún í hryllingsbúðina sem titillinn vísar til. Blómasalinn Markús er leikinn af Norðlendingnum Arnþóri Þórsteinssyni, sem átti eftirminnilega frammistöðu í verkinu Chicago sem LA setti upp fyrir tveimur árum. Hjá Markúsi í blómabúðinni vinna þau Baldur og Auður, en samband þeirra er lykilörlagavaldur í sögunni. Það eru þau Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, og Birta Sólveig Söring Þórisdóttir sem leika þau. Það sem setur strik í reikninginn þeirra á milli, er að Auður á hræðilegan kærasta, tannlækni með kvalalosta. Yfirleitt er tannlæknirinn leikinn af karlmanni, en hjá LA er það Ólafía Hrönn Jónsdóttir sem fer með hlutverk hans.

Hvers kyns er tannlæknirinn?

„Hún er að leika tannlækninn,“ segir Bergur, aðspurður um það hvort að kyni tannlæknisins verði breytt í uppsetningunni, eða hvort Ólafía leiki karlmann. „Fyrir það fyrsta er Ólafía Hrönn frábær leikkona og mér fannst hún tilvalin í hlutverk tannlæknisins. Hvort sem tannlæknirinn svo er kona, karl eða hán, er aukaatriði. Hann er samt kallaður 'hann' í verkinu. Þetta er í raun hlutverk ofbeldismannsins í sýningunni, og með því að setja konu í hlutverkið fáum við kannski annan vinkil á það.“ Bergur grínast með að það hafi náttúrulega verið þannig í gamla daga að karlmenn léku öll hlutverkin og kannski er kominn tími til þess að jafna þetta út smátt og smátt. „Svo er áhugaverð pæling, hvort að allir geti leikið allt?“  

 

Ólafía Hrönn Jónsdóttir í essinu sínu sem tannlæknirinn, komin með Kristin Óla í viðkvæma stöðu. Mynd: Auðunn Níelsson

Tannlæknirinn er ekki sá eini sem beitir ofbeldi í Litlu hryllingsbúðinni, heldur er það líka hin ógurlega Auður 2, mannætuplantan sem er upphaflega lítil og saklaus og sæt. Bergur talar og syngur fyrir Auði, en Jenný Lára Arnórsdóttir er inni í plöntunni og stýrir henni. „Við leikum Auði 2 saman. Og það er dásamlegt að leika hana. Hún er voðalega sæt, og þó hún hagi sér svona, þá þykir okkur mjög vænt um hana.“ 

„Við erum í samstarfi við Pilkington props, sérfræðinga í brúðugerð hér á landi,“ segir Bergur. „Leikmyndahönnuðurinn okkar, Sigríður Sunna Reynisdóttir, er svo menntuð í brúðugerð og brúðuleikhúsi, þannig að við höfum verið að njóta krafta einstaklega færs fólks við það að búa til plöntuna og láta hana lifna við. Það er stórt verkefni í þessari sýningu, sagan snýst eiginlega um hana.“

 

Auður 2 þegar henni hefur aldeilis vaxið ásmegin. Ekki laust við að Kristinn Óli í hlutverki Baldurs sé skjálfandi á beinunum. Mynd: Auðunn Níelsson

Litla hryllingsbúðin er ekki barnasýning

„Það er ljótt orðbragð, mannát og ofbeldi í sýningunni,“ segir Bergur, spurður um það hvort að hún hæfi börnum. „Þannig að nei, ég myndi ekki segja það, en hún er ekki bönnuð börnum. Það er örugglega mjög persónubundið hvort börn verði hrædd eða ekki. Ef börn þola að horfa á Voldemort og Lord of the Rings, þá ætti þetta ekki að koma þeim úr jafnvægi. Fólk verður sjálft að meta þetta fyrir hönd barna sinna. En ég ítreka að það er ljótt orðbragð, mannát og ofbeldi í sýningunni.“ 

Takmarkaður sýningartími og miðar seljast hratt   

„Við sýnum til 30. nóvember, alla fimmtudaga, föstudaga og laugardaga,“ segir Bergur. „Svo verðum við að hætta, þar sem húsið er upptekið og listafólkið fer í önnur verkefni. Salan gengur mjög vel og ég myndi ekkert hangsa við að kaupa miða, þeir eru af skornum skammti.“  

„Endilega drífa sig í leikhús, ég lofa mikilli skemmtun,“ segir Bergur að lokum.