Fara í efni
Menning

Saga og Sunna frumsýna í Hlíðarbæ á morgun

Saga Jónsdóttir flytur eigin einleik í Hlíðarbæ annað kvöld.

Leikkonurnar Saga Jónsdóttir og Sunna Borg koma fram á leikviðburði í Hlíðarbæ norðan Akureyrar annað kvöld, föstudagskvöld.

Annars vegar verður frumsýndur einleikurinn Óvænt uppákoma eftir Sögu, sem hún flytur sjálf, og hins vegar flytur Sunnar ljóðabálkinn Bergljót eftir Björnstjerne Björnsson í þýðingu Þórarins Eldjárn, við píanóundirleik Alexanders Edelstein. Tónlistin er eftir Edward Grieg.

Í tilkynningu segir að í einleiknum undirbúi fullorðin kona komu gesta sem hún hefur boðið til sín í nokkru hasti. Hún rifjar upp og talar um ýmislegt sem á dagana hefur drifið og ástæðuna fyrir boðinu! Bergljót fjallar um valdabaráttu, mikil örlög og svik.

Frumsýningin annað kvöld hefst klukkan 20.00.

Næstu sýningar: laugardag 13. mars kl. 20.00, föstudag 19. mars kl. 20.00, laugardag 20. mars klukkan 16.00 og sama dag klukkan 20.00.

Takmarkaður sýninga- og sætafjöldi. Miðaverð er 4.500 krónur en verð fyrir eldri borgara og hópa er 4.000 krónur á mann.

Sóttvarnarreglur verða í heiðri hafðar, segir í tilkynningu, og miðasala er hjá MAk.is og við innganginn.

Alexander Edelstein og Sunna Borg.