Safna vegna útgáfu á sellóleik Hafliða
Akureyringurinn Hafliði Hallgrímsson, sellóleikari og tónskáld, fagnar áttræðisafmæli í ár og af því tilefni er í undirbúningi útgáfa á tvöföldum geisladiski með hljóðritunum af sellóleik hans í Reykjavík og London. Með diskunum fylgir bók upp á um það bil 50 síður.
Hafliði hefur verið búsettur í Bretlandi um langt skeið, lengst af í Skotlandi. Hann hefur átt fjölbreyttan og viðburðaríkan feril, bæði sem sellóleikari og tónskáld og var til dæmis um árabil fyrsti sellóleikari Skosku kammersveitarinnar. Síðustu áratugi hefur hann nær alfarið sinnt tónsmíðum.
Fjársöfnun stendur yfir á Karolinafund. HÉR er hægt að styrkja verkefnið og fá nánari upplýsingar.
Pabbi, eru til upptökur?
Við tímamót eins og stórafmæli er gjarnan litið um öxl; lífshlaupið og ferillinn, sem í tilfelli tónlistarmanns er eitt og það sama, skoðaður í heild og með hæfilegri fjarlægð. Hafliði orðar það þannig sjálfur að nú sé kominn tími til að gera hreint fyrir sínum dyrum hvað sellóleikinn varðar!
Hann rifjar upp:
„Þar sem við sitjum við kvöldverðarborðið í íbúðinni okkar í Edinborg fyrir mörgum árum síðan, segir annar af tveim yngri sonum okkar óvænt; „Ég hef oft séð þig leika á selló í Skosku Kammersveitinni pabbi, en ég hef aldrei heyrt þig sem einleikara á tónleikum, eru til einhverjar upptökur?“
Þetta varð til þess að ég fór að athuga hvað væri til. Í upptökusafni Ríkisútvarpsins fundust nokkrar upptökur sem ég taldi nothæfar. Þar fyrir utan fann ég í kassa heimavið, safn af segulbandsspólum og snældum frá einleikstónleikum í gegnum árin.
Engin af þessum upptökum var gerð sérstaklega með útgáfu á geisladisk í huga.
Það hefur sjaldan vakið áhuga minn að gefa út geisladisk með eigin sellóleik. Þá sjaldan sem slík hugmynd bærði á sér, var hún á „bak og burt“ eftir nokkra daga og kemur þar margt til.“
„Hljómrænt skjalasafn“
Hafliði segist líta á útgáfuna sem „hljómrænt skjalasafn sem greinir frá tónlistarflutningi mínum sem sellóleikara eins og hann í rauninni var, með kostum sínum og göllum.
Nokkrar upptökur með kammertónlist eru til staðar, en mér leið alltaf best á opinberum tónleikum í flutningi á kammertónlist, og á því sviði lét ég töluvert að mér kveða. Lögð er áhersla á að gefa sem víðtækasta mynd af hvaða tónlist vakti áhuga minn, og kvað ég lék sem einleikari á árunum frá 1970 til 1985.
Þar sem ætlunin var að gefa aðeins út tvo diska og viss takmörk sett, er í sumum tilfellum um aðeins einn kafla að ræða úr stærri og veigameiri tónverkum. Tekin sem heild, kemur þetta safn tónlistar víða við.“
Með Hafliða á upptökunum leika:
- Anna Guðný Guðmundsdóttir – píanó
- Manuela Wiesler – þverflauta
- Robert Bottone – píanó
- Philip Jenkins – píanó
- Ólafur Vignir Albertsson – píanó
- Halldór Haraldsson – píanó
- Einar Jóhannesson – klarínetta
- Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Guido Ajmone-Marsan
Útvarpsþættir á RÚV
Vert er að benda á þætti um Hafliða á vef RÚV. Þar segir hann skemmtilega frá æsku sinni og uppvexti á Akureyri í fimm þátta röð, sem var á dagskrá Rásar 1 árið 2016. Þættirnir eru endurfluttir í ár í tilefni áttræðisafmælis Hafliða og verða aðgengilegir á vef RÚV næstu vikurnar.
Hér má hlýða á fyrsta þáttinn af fimm.
- Á myndinni að ofan leikur Hafliði Hallgrímsson á fyrsta sellóið sem hann lék á; hljóðfæri sem var í eigu Tónlistarskólans á Akureyri, smíðað af hinni frægu Kay gítarverksmiðju. „Sellóið var ólánleg eftirlíking af hinni upprunalegu ítölsku fyrirmynd. Það var þar að auki óvenju þungt og óþjált í meðferð. Hljómur þess er löngu gleymdur, sem betur fer. Ég lék á þetta hljóðfæri þann stutta tíma sem ég var nemandi í Tónlistarskóla Akureyrar, þá 11 ára,“ segir Hafliði. Myndina tók Stefán, bróðir Hafliða, kunnur útvarpsvirki á Akureyri.
- Hér að neðan eru Hafliði og Philip Jenkins, píanóleikari, sem bjó á Akureyri um tíma á árum áður.