Fara í efni
Menning

Sævar semur og útsetur fyrir Skugga svein

Tónskáldið og píanistinn Sævar Jóhannsson semur og útsetur tónlistina fyrir Skugga Svein sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir í janúar 2022. Þetta kemur fram á vef Menningarfélags Akureyrar.

Sævar hefur gefið út þrjár plötur undir listamannsnafninu S.hel en fjórða platan, Whenever Your’re Ready, kemur út á næsta ári í samstarfi við útgáfurisann Sony. Sú plata verður sú fyrsta sem hann gefur undir eigin nafni.

Sævar hefur tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum og samið fyrir dansverk, stuttmyndir og leikhús og þar á meðal fyrir uppfærslu Mutter Courage eftir Bertolt Brecht í leikstjórn Mörtu Nordal.

„Ég bjó á Akureyri þegar ég var fimm til sex ára og þegar ég kom aftur 2019 til að vinna í Mutter Courage leið mér eins og ég væri kominn heim. Mér líður alltaf vel hér og dáist líka af öfluga menningarlífinu hér í bænum,“ segir Sævar.

Jón Gnarr leikur Skugga Svein. Aðrir leikarar eru Björgvin Franz Gíslason, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Sunna Borg, María Pálsdóttir, Árni Beinteinn, Vilhjálmur B. Bragason og Vala Fannell. Marta Nordal leikstýrir.