SA-konur töpuðu aftur í Egilshöllinni

Kvennalið SA i íshokkí mátti aftur sætta sig við tap fyrir Fjölni í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn þegar liðin mættust í þriðja leik einvígisins í Egilshöllinni í dag.
Fjölniskonur voru mun aðgangsharðari í byrjun leiks og skoruðu þrívegis á um fjögurra mínútna kafla í fyrsta leikhluta. Fyrst var það Berglind Leifsdóttir á 13. mínútu, þegar Fjölnir var í yfirtölu eftir refsingu á SA. Fljótlega bættu svo Teresa Snorradóttir og Elísa Dís Sigfinnsdóttir við tveimur mörkum með 19 sekúndna millibili þegar leið á fyrsta leikhlutann.
Magdalena Sulova minnkaði muninn í tvö mörk með marki snemma í öðrum leikhluta eftir stoðsendingu frá Silvíu Rán Björgvinsdóttur og Sólrúnu Össu Arnardóttur. Mark Magdalenu var eina markið í öðrum leikhluta, staðan 3-1 fyrir lokaþriðjunginn.
Berglind Leifsdóttir innsiglaði sigur Fjölnis með sínu öðru marki og fjórða marki Fjölnis í lokaleikhlutanum og Fjölnir tók því aftur forystu í einvíginu, 2-1.
- Fjölnir - SA 4-1 (3-0, 0-1, 1-0)
Leikskýrslan
Fjórði leikur liðanna verður á Akureyri þriðjudaginn 18. mars kl. 19:30. SA verður að vinna þann leik til að halda baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn áfram.
Leik SA og Fjölnis var streymt á YouTube-rás ÍHÍ og má sjá upptöku af leiknum í spilaranum hér að neðan.