„Rúletta; Rúlluterta“ í Verksmiðjunni
Listsýningin „Rúletta; Rúlluterta“ verður opnuð í Verksmiðjunni á Hjalteyri næstkomandi laugardag, 3. ágúst, klukkan 14.00.
Fjöldi listamanna tekur þátt í sýningunni: Alda Ægisdóttir, Axel Frans Gústavsson, Bjartur Elí Ragnarsson, Elín Elísabet Einarsdottir, Gabriel Backman Waltersson, Hekla Kollmar, Íris Eva Magnúsdóttir, Ísabella Lilja Rebbeck, Ívar Ölmu Hlynsson, Kata Jóhannesdóttir, Katla Björk Gunnarsdóttir, Lúðvík Vífill Arason, Quinten Vermeulen, Ráðhildur Ólafsdóttir, Saga Líf Sigþórsdóttir, Tómas van Oosterhout, Úlfur Logason, Ævar Uggason.
Sýningarstjóri er Hrafnhildur Helgadóttir.
Í sýningartexta er eftirfarandi ljóð:
Rúletta; Rúlluterta
Hringur burt frá öllu
það stingur fast
í mína fingur
stígur flýgur
Karl hvellt lýgur
stígur tígur
rígur mígur
í mýflugur.
Form skvorm
skvettir sýgur
gegnum rör
kornið sýgur fjör.
Síðan segir:
Tékkaðu á þessu ljóði – það er skrifað eftir reglum ósjálfráðra skrifa sem lagðar voru fram í stefnuyfirlýsingu súrrealismans eftir André Breton – af 18 listamönnum í lýðræðislegu samstarfi (á la Alþingi), með því að nota stíl hinna frábæru Dadaista frá París – súrrealistaleikur sem leikinn var af Duchamp, Toulouse-Lautrec og Elsu von Freytag-Loringhoven. Ef þú vilt upplifa mest lifandi og áhugaverðustu listasenuna – þar sem úir og grúir af hugmyndalistamönnum, kvikmyndagerðarmönnum, collage listamönnum, listmálurum og skáldum – „Hið lifandi Dada“ (í vímu með grænu músunni) þarftu ekki að gera annað en að finna þér tímavél og fara aftur til Parísar í Frakklandi um 1920... eða kannski (og bara kannski) getur þú bara hoppað upp í bílinn þinn og keyrt til Hjalteyrar, þar sem þessi hópur ungra listamanna (meirihluti þeirra eru ný-útskrifuð úr BA námi í myndlist frá LHÍ) hefur sett upp róttæka listasýningu fulla af absúrd og ljóðrænum pælingum. Passaðu að hljóðkúturinn sé almennilega festur við gamla bílinn þinn og að varadekkið sé í lagi, fylltu skottið af bjór og breiddu lopapeysur yfir (bara ekki of hátt til að byrgja þér sýn út um afturrúðuna). Hver tekur miðjusætið?
Titill sýningarinnar er sá sami og ljóðið: „Rúletta; Rúlluterta”.
Rúletta – Miskunnarlaus áhættuleikur. Hugsaðu um harmleikinn í kvikmyndinni The Deer Hunter – Robert De Niro með byssu við höfuðið, blóðið spýtist úr Christopher Walken í musterinu. De Niro í örvæntingu að reyna að stöðva blæðinguna. Raunsæisleg kvikmyndataka Vilmos Zsigmond hefur aldrei verið áleitnari.
Rúlluterta – Hefðbundin skandinavísk upprúlluð kaka. Eins og amma bakar. Nú er rúllutertan fjöldaframleidd, pökkuð í lofttæmdar umbúðir og seld í Bónus. Svona köku borða bifvélavirkjar þegar þeir taka sér kaffipásu frá því að laga gamla skrjóðinn þinn. Rúlluterta sem myndlíking fyrir þá helgu geometríu sem er að finna í síð-iðnvæddu landslagi Íslands; heybaggar rúllaðir upp í plast – upprúlluð dýna – sammiðja hringir í skeljum við strendur Eyjafjarðar.
Orðin tvö sameinuð, „Rúletta/ Rúlluterta“: sykurmjúk byssa, eða hrottaleg amma – notalegt ofbeldi.
- Hvar er Verksmiðjan? Upplýsingar á Google Maps
Sýningin verður opnuð kl. 14.00 á laugardaginn sem fyrr segir og stendur til 8. september.
- Sýningin og koma listamannanna er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, Hörgársveit og Myndlistarsjóði.
- Verksmiðjan á Hjalteyri er sýningar- og verkefnarými stofnað 2008 í gömlu síldarverksmiðjunni á Hjalteyri. Aðaláhersla er lögð á alþjóðlega samtímalist, kvikmyndir, vídeólist en einnig námskeið listaskóla. Verksmiðjan á Hjalteyri var handhafi Eyrarrósarinnar 2016 en hún er árlega veitt fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Verksmiðjan hlaut einnig sérstaka viðurkenningu Myndlistarráðs fyrir áhugaverðustu samsýninguna 2021.