Ráðlegg fólki að taka vasaklútana með!
„Barbara Hannigan er bæði stórkostleg söngkona og stórkostlegur stjórnandi. Það er einstök upplifun þegar stjórnandinn snýr sér að áhorfendum og fer syngja,“ segir Herdís Anna Jónsdóttir, víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands í samtali við Akureyri.net. Hljómsveitin kemur fram í Hofi í kvöld þar sem Hannigan verður við stjórnvölinn – og syngur í tveimur verkanna!
Hljómsveitin lék í tónlistarhúsinu Hörpu í gærkvöldi þar sem boðið var upp á sömu efnisskrá og í kvöld.
- Golfam Khayam: I am not a tale to be told
- Franz Josep Haydn: Sinfónía nr. 96 í D-dúr – Kraftaverkið
- Gustaf Mahler: Sinfónía nr. 4 í G-dúr – Himnasælusinfónían
„Barbara syngur í verki Golfam Khayam og í Himnasælusinfóníu Mahlers, sem mér finnst eitt fallegasta stykki sem til er,“ segir Herdís Anna, mikill aðdáandi Mahlers. „Hann er ekki hátíðlegur heldur er tónlist hans mjög aðgengileg og þess vegna fyrir alla. Fólk gerir sér líklega ekki grein fyrir því að kvikmyndatónskáld leit til dæmis mjög mikið til Mahlers; tónlist hans er grunnur að mörgum tegundur tónlistar. Hann var sveitagæi sem semur lífið og tilveruna, um blómið í túninu og kýrnar í haga.“
Barbara Hannigan og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu í gærkvöldi. Mynd af Facebook síðu hljómsveitarinnar.
Verkið er skrifað fyrir sinfóníuhljómsveit og eina kvenrödd. Þegar Herdís er spurð hvort hún geti lýst nánar upplifuninni þegar stjórnandinn Hannigan snýr sér út í sal í lok verksins og hefur upp raust sína svarar hún, stutt og laggott: „Það er einfaldlega stórkostlegt. Ég ráðlegg fólki að taka vasaklútana með!“
Öndvegisverk og heimsfrumflutningur
Fyrsta verk kvöldsins er „nýtt og spennandi verk íranska tónskáldsins Golfam Khayam, en hún nýtur mikillar velgengni fyrir tónsmíðar sínar. Leiðir þeirra Barböru Hannigan lágu saman eftir þátttöku Hannigan í samstöðutónleikum með konum í Íran og er þessi stutta og spunakennda tónhugleiðing samin með hana í huga,“ eins og það er orðað í tilkynningu frá Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands á verki Khayam í Hörpu í gær var heimsfrumflutningur og það mun því hljóma í annað sinn opinberlega í Hofi í kvöld.
Næst í röðinni er svonefnd Kraftaverkasinfónía Josephs Haydn nr. 96, sem talið er til öndvegisverka tónbókmenntanna, eins og Himnasælusinfónía Mahlers. Þarna er um að ræða eina af „hinum snilldarlegu Lundúnasinfóníum hans þar sem kímnigáfa hans og fullkomið vald á forminu njóta sín til fulls. Himnasælusinfónía Mahlers er sömuleiðis í sérflokki meðal höfundarverka hans – klassísk í formi og aðgengileg en full af barnslegri einlægni, ást á náttúrunni og tilfinningu fyrir hinu yfirskilvitlega.“
Tónleikarnir í Hörpu í gær. Herdís Anna Jónsdóttir fyrir miðju vinstra megin. Mynd af Facebook síðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Með góðan grunn frá Akureyri
Gaman er að segja frá því að átta Akureyringar leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands, en þeir verða reyndar ekki allir með á þessum tónleikum.
Fjórir af 10 víóluleikurum SÍ eru Akureyringar; Þórarinn Már Baldursson, Þórunn Ósk Marínósdóttir, Guðrún Þórarinsdóttir og Herdís Anna Jónsdóttir. Þórir Jóhannsson og Gunnlaugur Stefánsson leika á kontrabassa, Dagbjörg Ingólfsdóttir á fagott og Emil Friðfinnsson á horn.
„Ég fór frá Akureyri á sínum tíma með mjög góðan grunn, ekki síst í hljómsveitarspili. Roar Kvam, Oliver Kentish og Michael Clarke eru mínir mentorarar,“ segir Herdís Anna við Akureyri.net. Hún nam í Tónlistarskólanum á Akureyri og lék með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands strax frá stofnun.
„Ég kem úr góðum jarðvegi fyrir norðan og það veganesti hefur reynst mér mjög dýrmætt. Tengin norður er svo sterk; þegar ég spila sum verk sem ég hef oft spilað áður, til dæmis Carmina Burana sem Sinfónían flutti á dögunum, hugsa ég alltaf til upprunans. Við spiluðum nefnilega meðal annars það flókna verk í Íþróttaskemmunni á Akureyri á sínum tíma og ég velti því oft fyrri mér hvernig okkur tókst að flytja það á áhuganum og kraftinum!“
- Sinfóníuhljómsveit Íslands fór í tónleikaferð um Bretland fyrr á þessu ári og lék við fádæma undirtektir. Hér má sjá umfjöllun Akureyri.net um ferðina fyrr í vikunni: Sterk viðbrögð: Þið eruð boðberar vonar!