Fara í efni
Menning

Pálína og „Litir í flæði“ í Mjólkurbúðinni

Pálína Guðmundsdóttir opnar myndlistarsýninguna Litir í flæði í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu á Akureyri í dag, föstudaginn 19. júlí. Opið verður kl. 20.00-22.00. Sýningin stendur til og með sunnudags 28. júlí. Opið daglega milli kl. 14.00 og 17.00.

Málverkin á sýningunni gerði Pálína á Siglufirði árin 2019 og 2020 og hafa þau aldrei verið sýnd áður.

„Litir eru hið alltumvefjandi einkenni listaverka Pálínu Guðmundsdóttur. Hún menntaði sig samtímis í málvísindum og myndlist og hefur allt frá upphafi helgað höfundarverk sitt tjáningarmætti lita. Litirnir lýsa málverkin upp og skapa þeim krefjandi nærveru sem jafnframt býður upp á leik og leit að línum og formum, hvort sem um er að ræða andlitsdrætti eða markalínur hins fjölskrúðuga litalandslags,“ er haft eftir Úlfhildi Dagsdóttur í tilkynningu um sýninguna, og vísað á heimasíðu listakonunnar, www.palina.is

Pálína, fullu nafni Guðrún Pálína, nam myndlist í Hollandi 1982-1989, fyrst í AKI í Enschede svo framhaldsnám í Jan van Eyck Akademie í Maastricht. Hún flutti til Akureyrar 1991, hefur verið starfandi myndlistamaður og er með fjölda sýninga að baki. Á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2022 gaf hún út bókina Andlit/Faces.