Fara í efni
Menning

Orgelsnillingur leikur í Akureyrarkirkju

Mattias Wager, dómorganisti í Stokkhólmi, er margverðlaunaður tónlistarmaður.

Svíinn Mattias Wager, dómorganisti í Stokkhólmi og organisti sænsku hirðarinnar, leikur á tónleikum í Akureyrarkirkju á sunnudaginn. Hann er snillingur; margverðlaunaður tónlistarmaður í hæsta gæðaflokki, að sögn Eyþórs Inga Jónssonar, organista. Tónleikarnir eru hluti Orgelhátíðar Akureyrarkirkju.

Á tónleikunum leikur Wager m.a. verk eftir Johann Sebastian Bach og Dimitri Sjostakovitj auk þess að spinna yfir íslensk sálmalög.

Wager er ekki aðeins organisti í Storkyrkan, dómkirkju Stokkhólms, hann heldur orgeltónleika út um allan heim og kennir á meistarakúrsum. Hann leikur reglulega með mörgum helstu kórum og tónlistarfólki Norðlandanna, útsetur auk þess mikið fyrir orgel og semur tónlist, m.a. fyrir leikhús.

„Hann er hvað þekktastur fyrir hæfileika sína í spuna, en hann mun einmitt spinna yfir íslensk sálmalög á tónleikunum,“ segir í tilkynningu. Wager er „sérstakur Íslandsvinur og hefur komið til landsins margoft til að halda orgeltónleika, spila með kórum ofl.“

Tónleikarnir á sunnudaginn hefjast klukkan 17.00. Miðaverð er 2.500 krónur.

Dagskrá tónleikanna

Christina Blomkvist
Allegro maestoso

Johann Sebastian Bach (1685-1750)
Aria variata alla maniera italiana, BWV 986

Kristina Forsman
Miserere

Florence Price
Úr svítu nr. 1 fyrir orgel

Air
Tocatto

Spuni yfir íslensk sálmalög

Dimitri Sjostakovitj (1906-1975)
Úr píanókonsert nr. 2 í F dúr, op 102. (Wager útsetti fyrir orgel)

1. Allegro

_ _ _

Mörg afmæli

  • Orgel Akureyrarkirkju er næst stærsta pípuorgel landsins. Það er byggt árið 1995, á grunni gamla orgels kirkjunnar, sem var frá árinu 1960.
  • Árið 2020 stóð til að fagna 80 ára afmæli Akureyrarkirkju, 75 ára afmæli Kórs Akureyrarkirkju, 60 ára afmæli upprunalega orgelsins og 25 ára afmæli „nýja“ orgelsins. Vegna heimsfaraldurs urðu hátíðahöldin ekki eins umfangsmikil og til stóð.
  • Því var ákveðið að blása til orgelhátíðar í lok faraldurs. Hún hófst á dögunum og lýkur í afmælismessu Akureyrarkirkju, 20. nóvember.