Menning
Óhöpp og annað vesen í Mjólkurbúðinni
04.08.2022 kl. 06:00
Myndlistarkonan Heiðdís Hólm opnar sýninguna Óhöpp og annað vesen í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á morgun, föstudag, klukkan 20.00.
„Viðfangsefni sýningarinnar er blanda af persónulegum minningum, ævintýrum, hugarórum og martröðum svo erfitt er að greina á milli. Til sýnis verða olíumálverk á striga og teikningar á pappír sem voru unnin á síðustu tveimur árum,“ segir í tilkynningu.
„Heiðdís Hólm (f. 1991) lauk námi úr Myndlistarskólanum á Akureyri 2016 og stundaði nám við Glasgow School of Art veturinn 2019 - 20. Hún hefur sýnt hérlendis og í Evrópu, t.d. í Skotlandi, Frakklandi og Svíþjóð. Síðastliðin ár hefur hún sett fókusinn á tvívíð verk, oft sjálfsævisöguleg með áherslu á teikningu og dramatík.“
Sýningin stendur yfir til 14. ágúst.