Fara í efni
Menning

Oddeyri. Saga, hús og fólk

Oddeyri - Saga, hús og fólk. Ný bók eftir Kristínu Aðalsteinsdóttur og Arnór Blika Hallmundsson. Kristín hefur áður gefið út bókina Innbær. Húsin og fólkið.

Út er komin bókin Oddeyri - Saga, hús og fólk eftir Kristínu Aðalsteinsdóttur og Arnór Blika Hallmundsson, ríkulega myndskreytt bók um fólkið og húsin á Oddeyrinni á Akureyri.

Bókin er með svipuðu sniði og fyrri bók Kristínar, Inngær. Húsin og fólkið, nema hvað viðbótin í þessari bók eru sögulegir punktar eða fróðleikur um húsin sem viðmælendur Kristínar búa í. Grunnhugmynd Kristínar er samtal við núverandi íbúa í húsum í gömlu og grónu hverfi, húsum með sögu. Hún byrjaði á Innbænum og snýr sér núna að Oddeyrinni. Framkvæmdin er þannig að Kristín sendi bréf í fjölmörg hús á Oddeyrinni með beiðni um viðtal og að íbúar viðkomandi hús verði myndaðir. Þannig verða húsin og fólkið hluti af þessari viðtalsbók, en síðan fyllir Arnór Bliki í sögulegu götin með fróðleik um húsin sjálf, sem mörg hver eiga sér langa og merkilega sögu. 

Gífurlega gefandi vinna

Þann 5. júní skrifar Kristín á Facebook að þau Arnór Bliki hafi unnið sleitulaust að bókinni í átta mánuði og hún sé á leið í prentun. „Vinnan hefur verið gífurlega gefandi, höfum ekki fleiri orð um það. Við vonum auðvitað að sem flestir sýni bókinni áhuga, hún verður söguleg heimild um líf fólks í öðru elsta hverfi Akureyrarbæjar.“

Í auglýsingu sem Kristín hefur sjálf sett inn í hópa á Facebook ritar hún: „Hvað skyldi leynast í þeim ótalmörgu frásögnum sem íbúar á Eyrinni hafa sagt mér í vetur?“ Þetta ritaði Kristín þegar hún átti eftir að taka eitt viðtal áður en gengið væri frá bókinni til prentunar. Nú er bókin komin úr prentun og eintökin bíða á bretti eftir að komast til nýrra eigenda. Fyrri bókin er uppseld og má búast við að þessi nýja verði einnig vinsæl.

Aftan á bókarkápunni eru tilvitnanir í nokkur viðtöl og þar kemur meðal annars þetta:

  • Við vorum líka svo lánsöm að hér á móti okkur var sambýli og einstakt og gott að hafa þá einstaklinga sem þar bjuggu í kringum okkur. Börnin okkar lærðu að fólk er alls konar.
  • Ég var erfiður krakki, ég fór aftur á bak í skóla en ekki áfram.
  • Það er mjög gaman að ganga um þetta hverfi, húsin eiga öll sína sögu, eru svo ólík, það er einhver borgarbragur á hverfinu, margt að sjá, fjölbreytileikinn mikill, fallegir garðar og fegurðin mikil.