Fara í efni
Menning

Nýtt lag og tvær plötur á leiðinni hjá Rúnari Eff

Rúnar Eff byrjar árið af krafti og gaf út lag á helstu streymisveitum síðastliðinn þriðjudag, 28. janúar. Lagið ber heitið Led astray og er önnur smáskífan af væntanlegri plötu sem kemur út á þessu ári. Á síðasta ári kom sú fyrsta út, Texas bound, en bæði lög eru blanda af kraftmiklu kántrí, suðurríkjarokki og blús, segir Rúnar. „Ég ætla að gefa út eina smáskífu í viðbót fljótlega, en svo kemur platan í heild sinni út síðar á árinu.“ Það er hörkuframleiðsla í gangi hjá þessum akureyrska tónlistarmanni, en hann er að vinna tvær nýjar plötur samhliða.
 
Ég er kominn með síðasta púslið á plötuna sem kemur út á þessu ári, en er ennþá að púsla hinni saman, sem er einhverskonar uppgjörsplata, full af einhverju hjartasárs-kántrí
„Nýja lagið er samið mestmegnis árið 2017, á einni nóttu heima í stofu,“ segir Rúnar. „Umfjöllunarefni texans er svolítið þungt, enda samið á tímabili þar sem ég var í töluverðum vandræðum með hausinn á mér vegna andlegrar vanlíðunar og kvíða. Það fjallar í raun um það sem var að gerast á þessum tíma, ég var búinn að vera duglegur að semja og taka upp grunna en kom svo engu frá mér vegna ástandsins. Og það er í raun ekki fyrr en Texas Bound kemur út í fyrra, að ég er farinn að rétta úr kútnum.

„I need a brand new start“

Rúnar semur tónlist í takt við það, hvernig lífið er, eins og gengur með listamenn. Þegar hann ætlaði að semja síðasta lagið á þessa plötu, voru aðstæður búnar að breytast. „Ég var nýbúinn að ganga í gegnum skilnað og mikið búið að ganga á, þannig að lögin sem ég var farinn að semja pössuðu ekkert á þessa plötu,“ segir Rúnar. „Ég ákvað því að útbúa efni á tvær plötur í einu. Ég er kominn með síðasta púslið á plötuna sem kemur út á þessu ári, en er ennþá að púsla hinni saman, sem er einhverskonar uppgjörsplata, full af einhverju hjartasárs-kántrí.

Tekið upp á Akureyri, Reykjavík og Texas

Nýja lagið, Led astray, var hljóðritað í hljóðveri hérna á Akureyri sem Rúnar á ásamt félögum sínum. „Lagið var svo mestmegnis klárað í stúdíoinu hjá Vigni Snæ í Reykjavík,“ segir Rúnar. „Söngurinn og Dobro slide partarnir voru reyndar hljóðritaðir í ferð okkar í Rosewood studios í Texas.“ 

HÉR er hlekkur á lagið Led astray á Spotify

 

 
Lag og texti: Rúnar Eff
Söngur, raddir: Rúnar Eff
Gítar & forritun: Vignir Snær Vigfússon
Gítar: Hallgrímur Jónas Ómarsson
Bassi: Stefán Gunnarsson
Trommur: Valgarður Óli Ómarsson
Orgel & píanó: Þorbjörn Sigurðsson
 
Upptaka: Vignir Snær Vigfússon & Hallgrímur Jónas Ómarsson.
Mix: Vignir Snær Vigfússon
Mastering: Biggi Tryggva