Fara í efni
Menning

Nýtt akureyrskt band gefur út plötu

Hljómsveitin 7.9.13. Mynd: Aðsend
7.9.13 er ný hljómsveit frá Akureyri, en hana skipa þau Ágúst Máni á bassa, Elmar Atli á gitar, Jóel Örn á gítar, Ólafur Anton á trommur, Styrmir Þeyr á píanó og Særún Elma syngur. „Við vorum öll í Tónlistarskólanum á Akureyri nema Ágúst, en einnig öll í VMA,“ segir Jóel Örn, gítarleikari hljómsveitarinnar. „Bandið byrjaði í raun sem undirleiksband fyrir Sturtuhausinn sem er söngkeppni VMA árið 2019. Særún Elma, söngkona hljómsveitarinnar vann þá keppnina það árið.“ 
 
Lögin eru mjög mismunandi, allt frá diskó til rokks og er hálfgert mixtape frá Covid-tímabilinu í okkar lífi
 
31. maí síðastliðinn lenti fyrsta plata hljómsveitarinnar, Lose control, á helstu streymisveitum. Tónlistin er í popp/rokk stíl og bæði er sungið á ensku og íslensku á plötunni. Lagið After 12 kom út í forsmekk, en það hefur hlotið yfir 1.200 hlustanir á Spotify. „Við semjum öll lög í sameiningu,“ segir Jóel. „ Það byrjar oftast með því að einhver kemur með hljómagang, riff eða takt. Særún og ég semjum svo textana og yfirleitt eru þeir samdir áður en við ákveðum lagið.“
 
 
Plötuumslag 'Lose control'. Mynd: Aðsend
 
Jóel segir að það nafnið 7.9.13. hafi komið þannig til, að hljómsveitin hafi stefnt á þáttöku í Músíktilraunum árið 2020 sem svo féll niður vegna Covid. „Þó að nafnið gefi það kannski til kynna, þá erum við ekki hjátrúarfull,“ segir Jóel. „Við urðum bara að vera snögg að finna nafn þegar við skráðum bandið í keppnina og þá var einhver nýbúinn að heyra þennan frasa, 7.9.13. og stakk upp á því sem nafni á hljómsveitina.“
 
„Við komum úr afar ólíkum áttum tónlistarlega séð og hlustum á mjög mismunandi tónlist,“ segir Jóel. „Flest lög sem við semjum taka ekki langan tíma og vorum komin með örugglega hátt í 50 hugmyndir að lögum fyrir plötuna. Svo völdum við þau sem okkur þótti vænst um og fínpússuðum fyrir plötuna. Lögin eru mjög mismunandi, allt frá diskó til rokks og er hálfgert mixtape frá Covid-tímabilinu í okkar lífi.“
 
Aðspurður um plön sumarsins segir Jóel að engir tónleikar séu á dagskrá, en hljómsveitin er opin fyrir öllu og hægt er að hafa samband á 7.9.13official@gmail.com með fyrirspurnir.