Fara í efni
Menning

Nýr minjagripur: Alltaf gott veður á Akureyri

Glænýr minjagripur um góða veðrið á Akureyri, veggspjald með áletruninni ALLTAF GOTT VEÐUR Á AKUREYRI.

Ferðafólk sem á leið um Akureyri getur nú tekið hið rómaða akureyrska góðviðri með sér heim í formi veggspjalds og hengt það upp heima hjá sér. Það er hönnuðurinn Ólöf Jakobína Ernudóttir sem hefur gert þetta mögulegt en sólskinsverk hennar eru nú fáanleg í versluninni Kistu í Hofi.

„Eins og allir Akureyringar vita þá er alltaf gott veður á Akureyri,“ segir Ólöf Jakobína sem vill með þessu leyfa sem flestum að muna góðar sólskinsstundir á Akureyri. Um er að ræða A4 veggspjald með skærgulri sól og áletruninni Alltaf gott veður á Akureyri. Veggspjaldið er risoprentað, sem er upprunaleg japönsk prentaðferð og ein sú umhverfisvænasta í heimi, að sögn Ólafar Jakobínu.

Ólöf Jakobína ólst upp í Kotárgerðinu en býr nú og starfar sem hönnuður í höfuðborginni. Myndin er tekin á Akureyri í fyrra, að sjálfsögðu í glampandi sólskini.

Fólk tengir við frasann

Aðspurð að því hvernig hugmyndin að þessari einföldu en fallegu sólskinsmynd kviknaði segir hún að þetta hafi allt byrjað í fyrravor þegar verslunin Kista hélt upp á 10 ára afmæli sitt með samsýningu í Hofi á verkum kvenna er tengjast Akureyri á einn eða annan hátt.

„Á þessari sýningu sýndi ég ljósmyndir en einnig vatnslitaverk með stórum gulum sólum með þessum texta. Fólk virtist tengja við þessi verk og þau seldust upp. Í framhaldinu varð þetta veggspjald til,“ segir Ólöf Jakobína sem er fædd og uppalin á Akureyri. Hún viðurkennir að eins og hjá mörgum brottfluttum Akureyringum þá er Akureyri alltaf sveipuð sólskini í minningunni. „Það var t.d. alltaf sól þegar maður var að lesa undir próf á vorin.“

Tilvalinn minjagripur fyrir brottflutta

Ólöf Jakobína segir að veggspjaldið sé hugsað sem minjagripur og sé tilvalin gjöf til Akureyringa nær og fjær. „Sólin fæst hjá Katrínu í Kistu og í hennar vefverslun - annars geta áhugasamir líka haft beint samband við mig,“ segir Ólöf Jakobína úr rigningu í höfuðborginni.

Hjá mörgum brottfluttum Akureyringum er bærinn í minningunni alltaf baðaður sólskini. Þessi ljósmynd er frá 1973 en þá er Ólöf Jakobína fjögurra ára gömul á leið í Lystigarðinn í blíðskapar veðri með afa sínum, Jakobi Ólafi Péturssyni.