Fara í efni
Menning

Ný plata væntanleg frá Kjass – söfnun í gangi

Ljósmynd: Daníel Starrason

Þessa dagana stendur yfir söfnun á Karolinafund fyrir framleiðslu á hljómplötunni Bleed n’ Blend með Kjass sem kemur út þann 12. ágúst næstkomandi. Þetta er önnur hljómplata Kjass sem er listamannsnafn tónlistarkonunnar Fanneyjar Kristjáns Snjólaugardóttur, en fyrsta plata hennar 2018 og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

„Hljóðfæraleikarar plötunnar eru valdir af kostgæfni. Þau Mikael Máni Ásmundsson og Anna Gréta hafa spilað með Kjass frá upphafi. Þau búa bæði yfir einstökum tón og spunakrafti sem gefur tónlistinni einstaka dýpt. Rodrigo Lopes spilar á trommur og litar tónlistina skemmtilega með suðrænum blæ frá Brasilíu. Stefán Gunnarsson límir síðan allt saman með mjúkum, þéttum og látlausum bassaleik,“ segir í tilkynningu.

„Tómas Jónsson spilar á Hammond í tveimur lögum sem gefur þeim aukin kraft, Ásdís Arnardóttir heldur utan um hljóðmyndina með undurfögrum sellóleik og Daníel Starrason spilar á gítar í lokalagi plötunnar.“

Góðar viðtökur

„Þrjú lög af plötunni hafa nú þegar hlotið góðar viðtökur á streymisveitum, Hey You, Please Master og Easy. Fjórði og síðasti singúllinn, Bleed´n Blend – Acoustic Version verður gefinn út þann 8. júli næstkomandi og plötu útgáfunni verður að sjálfsögðu fagnað með útgáfutónleikum í Reykjavík og á Akureyri í haust.“

Kjass segir það auðvitað „hálfgerða klikkun að standa í þessu tónlistarbrasi“, hún hafi oft hugsað mér að hætta þessu veseni „en ég held að það skiptir mjög miklu máli fyrir samfélagið í heild að fjölbreyttur hópur fólks taki sér rými í listsköpun,“ segir hún. „Ég upplifi það a.m.k. alltaf sem mjög valdeflandi að sjá flotta vandaða list sem aðrar konur eru að gera sama hvaða listgrein er um að ræða, konur sem stíga inn í kvenleikann og skapa eins og Hekla Björt Helgadóttir, Jenný Lára Arnórsdóttir, Birna Pétursdóttir, Anna Richards, Ragnheiður Gröndal, Marína Ósk, RAKEL, Helga Sigríður og svo ótal fleiri. Kvenleikinn er með tímanum að fá meira rými til að vera allskonar, ekki bara penn og það er magnað að fá að upplifa það innra með sér og utan við sig í samfélaginu.“

Fanney flutti til Akureyrar 2015 og var fyrsti nemandinn til að klára framhaldspróf í djass- og dægurlagasöng frá Tónlistarskólanum á Akureyri ári síðar. Í fjögur ár þar á undan hafið hún stundað nám í djasssöng og tónlistarkennslu í Tónlistarskóla FÍH.

„Árin í FÍH voru mjög lærdómsrík og Kjassverkefnið byrjaði í raun þar. Þar lærði ég að útsetja og semja lög og í raun allt sem þarf að kunna til að geta stjórnað eigin tónlistarverkefnum. Sem ég hef verið að gera síðan ég útskrifaðist, ásamt því að kenna tónlist.“

Hér er hægt að fylgja Kjass á samfélagsmiðlum:
https://www.instagram.com/kjass.music/
https://www.facebook.com/kjassid

Hér er hægt að styrkja verkefnið á Karolinafund

Ljósmynd: Daníel Starrason